Eldar í Dunhaga á sumrin, fer í jóga á Indlandi á haustin, ferðast milli Bandaríkja og Reykjavíkur á veturna

„Just pretend you are going to the swimmingpool, and then you will see the campingplace.“ Sagði Dagný Alda Steinsdóttir við ráðvillta ferðamanninn sem kom inn á Cafe Dunhaga á Tálknafirði í leit að tjaldstæði. Dagný Alda hefur rekið matsölustaðinn í Dunhaga í sex ár. Hún er ættuð frá Tálknafirði, móðurfólkið hennar býr þar og sem barn var hún í sveit hjá afa sínum í Tungu. „Já helmingurinn af þorpinu er frændfólk mitt,“ bætir hún við. Það er sko enginn svikinn af því að fara í mat eða kaffi í Dunhaga til hennar Dagnýjar. Ekki aðeins er maturinn óguðlega góður, heldur er konan líka alveg óskaplega skemmtileg og áhugaverð fyrir margra hluta sakir.

Dagný bjó í Bandaríkunum í 26 ár og er ýmist þar eða á Íslandi yfir veturinn, en sonur hennar býr ennþá ytra. Hún er innanhúsarkitekt að mennt og ef hún er ekki þar eða hér þá er hún á Indlandi í jóga og afslöppun eftir ferðamannasumarið á Tálknafirði.
„En nú er aðalverkefnið að gera upp Dunhaga og reisa þar hótel,“ segir þessi röggsama kona. „Ég og maðurinn minn Guðmundur Már, keyptum húsið og erum að bíða eftir öllum leyfum til að fara af stað. Nú og þó það verði ekki hótel þá ætlum við bara að gera húsið upp því það er svo einstök saga sem fylgir því. Húsið tengist eiginlega öllum sem búið hafa á sunnanverðum Vestfjörðum.“

Í Dunhaga hafa verið haldin böll, þar var stúka og svo framvegis og framvegis. Kvenfélagið átti húsið en gaf Dagnýju leyfi fyrir sex árum til að reka þar kaffihús, sem vatt mjög hratt upp á sig svo úr varð matsölustaður og sögusýning með ljósmyndum. „Þetta var eiginlega þannig að móður minni var svo annt um söguna og henni fannst svo leiðinlegt að vita til þess ef saga Tálknafjarðar myndi glatast þegar eldra fólkið færi. Og þegar móðir mín deyr þá fer ég að hugsa þetta. Það byrjaði þannig að það var enginn veitingastaður hérna og ég gerði samning við kvenfélagið um að opna litla kaffistofu í Dunhaga. Og fór að safna myndum og laga og fékk til þess styrki frá nokkrum fyrirtækjum og það varð fljótlega þannig að þetta varð restaurant,“ segir Dagný.

Dunhagi stendur í útjaðri Tálknafjarðar, við sundlaugina og tjaldsvæðið. Mynd: Níels Ársælsson.

Það er óskaplega ljúft að labba inn í Dunhaga. Þar dúa gólfin og myndir af gengnum Tálknfirðingum prýða veggina. Myndir af börnum og fullorðnum, við leik og störf, myndir sem segja sögur án þess að segja orð.

Dagný segist alltaf hafa verið mikill áhugakokkur og hafa haft gaman af því að príla um fjörur og fjöll til að safna jurtum og berjum fyrir matseldina. „Ég er einmitt að fara í fjöru núna,“ sagði hún blaðamanni, „að ná í skarfakál og fjörukál, það finnst ekkert ferskara og þetta finnst bæði Íslendingum og útlendingum gaman að smakka.“ Dagný notast mikið við mat úr héraði á veitingastaðnum og þar má til dæmis fá spriklandi ferskan fisk, og svo góðan, að hún slær bestu atvinnukokkum við í matseldinni.

Sæbjörg
bb@bb.is