Dýrafjarðargöng orðin lengri en 3 kílómetrar

Í viku 29 voru grafnir 69,4 m í Dýrafjarðargöngum og 4 m í hliðarrými í útskoti G. Samtals voru því grafnir 73,4 m. Lengd ganganna í lok viku 29 var 3.025,3 m sem er 57,1 % af heildarlengd ganganna.

Í vikunni var útskot G klárað. Áfram var grafið í gegnum þurrt basalt í göngunum en í lok vikunnar var rautt setlag komið neðst í sniðið. Efnið úr göngunun var keyrt í vegfyllingar.

Búið er að fylla út að enda vegarins til suðurs en enn er eftir að klára skeringar suður af Mjólkánni þar sem þörf er á. Neðan við Mjólkárvirkjun var fyllt upp í endanlega hæð fyrir burðarlög, frá Mjólká og að tengingu við núverandi veg. Að auki var lítillega fyllt í veg við st.2.650 sem er mitt á milli munna ganganna og Hófsár.

Forskeringin í Dýrafirði eftir fyrstu umferð af sprautusteypu.

Gröftur frá staurum við Mjólká.

Klárað var að reka niður staura fyrir brúna yfir Mjólká og var hamarinn færður yfir í Hófsá og byrjað að reka niður staura fyrir nyrðri sökklinum. Byrjað var að grafa frá staurunum við Mjólká.

Í Dýrafirði var klárað að sprengja fyrir forskeringunni og búið að grafa niður að hluta. Gerður var pallur til að hægt væri að styrkja efri hluta forskeringarinnar og var byrjað að sprautusteypa og koma fyrir járnamottum.

Sæbjörg

bb@bb.is