Búa til sitt eigið tannkrem

Tuggutöflurnar fást í Vistveru. Mynd: Hildur Dagbjört.

Hildur Dagbjört Arnardóttir er vel þekkt fyrir framtak sitt sem snýr að verndun umhverfisins og vitundarvakningu í tengslum við það. Hún lifir ,,zero waste’’ eða ruslfríum lífsstíl, sem felur í sér hugmyndina um að minnka rusl. Ræktunarfélagið Gróandi sem hún stofnaði árið 2016 gengur einnig vel.

Ýmislegt er hægt að gera til þess að huga að umhverfinu og minnka umbúðir en nýlega bjó Hildur til sitt eigið tannkrem með börnunum sínum. ,,Fjölskyldan er með í þessum lifnaðarhætti að miklu leyti, krökkunum finnst oft gaman að taka þátt í að gera hlutina sem við notum í daglegu lífi,’’ segir Hildur.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem hún prófar sig áfram með tannkremsgerð en í þetta skiptið var það tuggutannkrem sem keypt var án umbúða, beint ofan í heimasaumaðan taupoka, í versluninni Vistveru í Grímsbæ. ,, Krökkunum fannst skrítið að tyggja tannkremið, svo við möluðum töflurnar og blönduðum við kókosolíu. Þá líkist þetta meira hefðbundnu tannkremi,’’ segir Hildur. Hún segir að krakkarnir séu sáttir og að tannkremið bragðist vel. Tannkremið á að virka eins vel og hefðbundið tannkrem og er viðurkennt af tannlæknum.

Ísabella