Skemmtilegt sögurölt í Steingrímsfirði

Um 40 manns tóku þátt í sögurölti í Steingrímsfirði. Mynd: Dagrún Ósk.

Það var margt um manninn í sögurölti í Steingrímsfirði núna í vikunni en gangan var hluti af samstarfsverkefni Byggðasafns Dalamanna og Sauðfjárseturs á Ströndum. Söfnin hafa tekið höndum saman um vikulegt sögurölt sem verður til skiptis í Dölum og á Ströndum í sumar í samvinnu við ýmsa aðila.

Núna síðastliðið mánudagskvöld var gengið frá Húsavíkurkleif í Steingrímsfirði að Sauðfjársetrinu í Sævangi þar sem hægt var að kaupa kökur og kaffi eftir röltið. Gangan í þetta skipti var skipulögð í samstarfi við Rannsóknarsetur HÍ á Ströndum – Þjóðfræðistofu og Jón Jónsson verkefnisstjóri rannsóknarsetursins og þjóðfræðingur var leiðsögumaður göngunnar. Á leiðinni voru ýmsir áhugaverðir sögustaðir, til dæmis tóftir af bænum Naustavík en rannsóknarsetrið vinnur nú, meðal annars, að því að skrifa upp dagbók Grafar-Jóns gamla sem bjó um tíma í Naustavík. Las Jón nokkra kafla upp úr dagbókinni við tóftina en lýsingarnar í dagbókinni eru mjög áhrifamiklar. Einnig var gengið fram hjá Fylgdarhamrinum, Einbúanum, Elísuboða og Lákakletti sem er gamall aftökustaður.

Það voru um það bil 40 manns sem gengu frá Húsavíkurkleif að Sævangi og hlustuðu á sögur á leiðinni. Það var bjart yfir og veðrið gott. Meðfylgjandi eru nokkrar myndir sem fréttaritari BB tók í göngunni.

 

Dagrún Ósk
dagrun@bb.is