Von á mörgum skemmtiferðaskipum til Vesturbyggðar í sumar

Skemmtiferðaskip í Vesturbyggð. Mynd: Julie Gasiglia.

Þrjú skemmtiferðaskip hafa komið til Vesturbyggðar það sem af er sumri og von er á sextán skipum til viðbótar. Hjörtur Sigurðsson, hafnarvörður Patreksfjarðar, segir í samtali við BB að sveitarfélagið og fyrirtæki njóti góðs af komu skipanna.

Tvö skip komu sama daginn í síðustu viku. Eitt lagðist við bryggju á Bíldudal með um það bil þrjátíu farþegum og annað við bryggju á Patreksfirði með 318 farþegum. Hjörtur segir unnið sé að því að taka sem best á móti farþegum skipanna. „Það kom eitt skip líka í lok maí til Bíldudalshafnar. Það hafa 16 skip bókað komu sína í viðbót hingað í sumar og hafa aldrei komið svona mörg skip hingað áður sama sumarið.“ segir Hjörtur.

Farið er í skipulagðar ferðir með farþegahópa úr skipunum á Látrabjarg, Rauðasand, Dynjanda ásamt komið er við á öðrum náttúruperlum á svæðinu. Það er ferðaþjónustufyrirtækið Westfjords Adventures sem sér um skipulagðar ferðir fyrir hópana um svæðið. Farþegum gefst því tækifæri að sjá fugla og seli auk þess hægt er að fara í sjóstangaveiði, jeppaferðir, gönguferðir og hjólaferðir á vegum fyrir-tækisins.

Hjörtur segir að það sé ekki hægt að neita því að það koma góðar tekjur af þessu og bætir við að hafnarsjóður og ýmis fyrirtæki, til að mynda ferðaþjónar njóti góðs af þessu. Hann segir að vel hafi tekist til við að taka á móti þeim gestum sem nú þegar hafa komið. „Það eru möguleikar sem felast í þessu og nú þegar hafa skip bókað komu sína bæði næsta sumar og sumarið eftir það, árið 2020.“ segir Hjörtur að lokum.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA