Stjórnunar- og verndaráætlun um friðlandið á Hornströndum

Umhverfisstofnun hefur sent frá sér eftirfarandi tilkynningu:

Undanfarið hafa fulltrúar Umhverfisstofnar, landeigenda og sveitafélags unnið að gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir friðlandið á Hornströndum. Tillagan er hér lögð fram til kynningar:

https://ust.is/einstaklingar/nattura/verndaraaetlanir-i-kynningu/fridlandid-a-hornstrondum/

Árið 1975 voru Hornstrandir, Aðalvík, Rekavík, bak Látur og Fljótavík ásamt hluta Jökulfjarða friðlýst sem friðland. Friðlandið á Hornströndum er 581 km2 að stærð og er staðsett á norðanverðum Vestfjörðum. Eitt af aðaleinkennum friðlandsins er hve afskekkt það er og lítið mótað af umsvifum og ágangi manna. Innan svæðisins er að finna mikilfengleg fuglabjörg, einstakt gróðurfar og menningarminjar sem standa sem minnisvarðar um tíðaranda og búsetuhætti sem liðnir eru undir lok. Þá er eitt af einkennum friðlandsins á Hornströndum hve þéttleiki heimskautarefsins er mikill, með því mesta á Norðurlöndum.

Markmið friðlýsingarinnar á Hornströndum er að vernda lífríki, jarðminjar og menningarminjar svæðisins. Markmið með gerð stjórnunar- og verndaráætlunar fyrir friðlandið er að leggja fram stefnu um verndun og hvernig viðhalda megi verndargildi þess þannig að sem mest sátt ríki um. Sérstaða svæðisins er mikil og með áætluninni er stefnt að því að standa vörð um og efla jákvæða ímynd svæðisins.

Stjórnunar- og verndaráætlun fyrir friðlandið á Hornströndum er ætlað að vera stefnumótandi skjal, unnið í samvinnu við sveitarfélag og landeigendur og er hugsað sem stjórntæki til að móta framtíðarsýn svæðisins. Markmiðið með gerð hennar er að leggja fram stefnu um verndun friðlandsins og hvernig viðhalda skuli verndargildi svæðisins.

Frestur til að skila inn athugasemdum og ábendingum er til 17. júlí nk. Hægt er að skila inn athugasemdum á heimasíðu stofnunarinnar, með tölvupósti á netfangið ust@ust.is eða með því að senda póst til Umhverfisstofnunar, Suðurlandsbraut 24, 108 Reykjavík. Nánari upplýsingar veitir Þórdís Björt Sigþórsdóttir, thordis.sigthorsdottir@umhverfisstofnun.is eða Kristín Ósk Jónasdóttir, kristin.jonasdottir@umhverfisstofnun.is eða í síma 591-2000.

DEILA