Pollurinn á Tálknafirði stækkaður

Tveir Pollvinir sem unnu rösklega að endurbótum fyrr á þessu ári, frá vinstri: Jón Örn Pálsson og Jónas Snæbjörnsson. Mynd: Pollvinafélagið.

Unnið er að því þessa dagana að lagfæra og stækka aðstöðuna við náttúrulaugina Pollinn í Tálknafirði. Búið er að stofna svokallað Pollvinafélag og sóttu landeigendur og heimamenn um styrk til sveitarfélagsins fyrir hluta framkvæmdanna. Jarðvegsvinna er hafin og til stendur að bæta við laug og salernisaðstöðu á svæðinu.

Jón Örn Pálsson, Tálknfirðingur og Pollvinur sagði í samtali við BB að stefnt sé að því að ljúka við breytingarnar fyrir Tálknafjör, sumarhátíð Tálknafjarðar sem haldin er annað hvert ár í bænum og verður haldin í lok júní mánaðar. „Við fengum styrk upp á 150.000 til að endurbæta aðstöðuna. Það hefur verið andstaða við það að auglýsa þetta og heimamenn hafa aldrei staðið fyrir því. En þetta er komið í fjölmarga bæklinga og það hefur aukið heimsóknir í Pollinn sem er ánægjulegt en það þarf að bæta aðstöðu í takt við það. Við erum að stefna að því að bæta við laug þarna fyrir Tálknafjör, okkar bæjarhátíð. Stækkunin á lauginni er 45% og því er um að ræða umtalsverða stækkun.“

Fyrirhuguð stækkun á Pollinum á Tálknafirði. Mynd: Pollvinafélagið.

Jón Örn segir að reynt sé að fá brottflutta til liðs við Pollvini til að styrkja verkefnið og svo er kominn söfnunarkassi á staðinn. „Svo byggist þetta upp á sjálfboðavinnu. Við erum á fullu að vinna í þessu þessa dagana og allar hendur er vel þegnar.“

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA