Plokkari á Patreksfirði vekur lukku

Sólveig Ásta Ísafoldardóttir, plokkari.

Margir eru farnir að stunda það að plokka. Hér er ekki átt við að plokka augabrúnir eða að matreiða plokkfisk, heldur er hér verið að vísa til þeirrar iðju að nýta hlaupatúra sína og skokk til þess að tína rusl. Hugtakið að plokka (e.plogging) er hingað komið frá meginlandi Evrópu, en er upprunalega frá Svíþjóð.

Á Patreksfirði er plokkari að nafni Sólveig Ásta Ísafoldardóttir búin að vekja mikla lukku það sem af er ári. Hún hefur plokkað af miklum krafti og gert það svo vel að varla má lengur finna sælgætisbréf á götum eða í görðum bæjarins. Sólveig segir í samtali við BB að hún hafi plokkað í mörg ár en farið frekar leynt með það hingað til.

„Það eru komin mörg ár síðan ég byraði að plokka en ég hef ekkert haft hátt um það. Það er orðin svo mikil vakning núna, þegar ég sá síðuna Plokk á Íslandi, þá var það mikil innspýting. Ég hef verið að dreifa myndum af því sem ég plokka á íbúasíðu hér á Patreksfirði og mér finnst gott að koma með upplýsingar um hvað kemur upp í fjör-unni hjá mér til dæmis. Hlutir eins dömubindi, eyrnapinnar og blautklútar eru hluti af því sem ég týni upp. Þetta er eitthvað sem fólk setur í klósettið án þess að hugsa út í það en vonandi hefur þetta áhrif og fær fólk til að að hugsa að þessir hlutir eiga ekki að fara þangað.“

Sólveig segir að hún hafi nánast falið þessa iðju áður fyrr. „Áður fyrr var maður að gera þetta í laumi því maður var svo hræddur við að vera uppnefndur ruslakelling eða eitthvað svoleiðis! En ég er ekki hrædd við það núna af því að það er svo mikil vakning. En fólk þarf að fara að hugsa sig um að þegar það hendir rusli þá hverfur ekki. Hef verið að hrósa Vesturbyggð fyrir hvað er mikið af ruslatunnum, þá er þetta auðveldara að stunda plokk og að henda rusli yfir höfuð.

Plokkarinn Sólveig tekur upp allt rusl sem hún finnur.

Þetta hefur áhrif að sögn Sólveigar og að fólk er farið að týna upp rusl eftir að hún fór að setja þetta á íbúasíður. Hún segir að það væri gott ef íbúar hverrar götu gætu séð um sína götu í staðinn fyrir að treysta á að einhver annar geri það. Það dugi ekki að treysta á unglingavinnuna, þau eigi frekar að taka að sér skemmtilegri verkefni.

Sólveig lætur ekki duga að plokka bara innanbæjar heldur fer hún líka út fyrir bæinn, alveg inn í botn Patreksfjarðar og hreinsar þar rusl í vegkantinum. Hún segir að þetta sé mjög gott fyrir heilsuna í leiðinni. „Ég fékk miklar harðsperrur þegar ég byrjaði að plokka og er búin að léttast um sex kíló. Svo hef ég ekki eins mikinn áhuga á nammi við að týna allt þetta nammibréf.“

Þrátt fyrir góðan árangur segir Sólveig að þótt mikið minna rusl sé á götum bæjarins núna þá sé hún hvergi nærri hætt. „Þetta verður vanabindandi, mér líður bara illa ef ég kemst ekki í nokkra daga.” segir hún að lokum.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA