Nýtt kaffhús á Brjánslæk

Nýja kaffihúsið á Brjánslæk nefnist einfaldlega Gamli bærinn. Mynd: Brjánslækur.

Nýlega var opnað kaffihús á bænum Brjánslæk sem kallast Gamli bærinn. Í Gamla bænum ríkir vinaleg stemning og í boði er kaffi og allskonar gómsætt kruðerí. Opnunartímar kaffihússins og sýninganna sem þar eru, er frá 10:00-18:00 alla daga. Það er því upplagt að gera sér glaðan dag og kíkja við á leiðinni í ferjuna Baldur nú eða bara við hvert annað tækifæri þegar fólk er á ferðinni um sunnanverða Vestfirði.

Jóhann Pétur Ágústsson, bóndi á Brjánslæk sagði í samtali við BB að þau leggi áherlsu á einfaldan matseðil. „Opnuðum 21. júní síðastliðinn og það er búið að vera lengi í bígerð að finna húsinu einhverja starfsemi. Það er opið daglega hjá okkur og við erum með nokkuð einfaldan matseðil. Svo eru sýningar sem settar voru upp í sam-starfi við Umhverfisstofnun um Surtarbrandsgil og svo erum við einnig búin að setja upp sýningu um Hrafna-Flóka.“

Aðspurður segir Jóhann að þau séu ekki enn farin að verða vör við mikla umferð ferðamanna sem nýta sér ferðir ferjunnar Baldurs. „Það tekur tíma að koma okkur á kortið. Við erum tiltölulega nýbúin að setja upp skilti hér við veginn en þetta fer allt að koma. Svo byrja göngurnar á vegum Umhverfisstofnunar um Surtarbrandsgilið fljótlega.“ segir Jóhann að lokum.

Aron Ingi

aron@bb.is

DEILA