Leikfélag Hólmavíkur sýnir í Árneshreppi og Búðardal

Mynd: Leikfélag Hólmavíkur.

Leikfélag Hólmavíkur heldur áfram að þeysast um landið og stefnir um næstu helgi í Árneshrepp og Búðardal með leikritið Halti Billi. Sýnt verður Dalabúð í Búðardal laugardaginn 23. júní klukkan 20:00 og í félagsheimilinu Árnesi í Trékyllisvík í Árneshreppi sunnudaginn 24. júní klukkan 20:00.

Arnór Jónsson sem fer með hlutverk titilpersónunnar Halta Billa í leikritinu segir að stemmningin í leikhópnum sé mjög góð og sér finnist alltaf gaman að fara í leikferðir. Arnór hefur tekið þátt í þó nokkrum uppsetningum með leikfélaginu á Hólmavík og farið í nokkrar leikferðir í gegnum tíðina, meðal annars út í Hrísey og á Act alone á Suðureyri. Aðspurður hvað sé skemmtilegast við það að fara í leikferðir svarar Arnór hlægjandi: „Það er allavega ekki að taka saman eftir sýninguna“ og bætir svo við „ætli það sé ekki félagsskapurinn eftir sýningar og stemmningin á leiðinni heim“.

Arnór segir sýningarnar á Halta Billa hafa gengið vel fyrir utan að undir lok fyrsta sýningartímabilsins hafi honum verið orðið frekar illt í ökklanum af öllu haltrinu. Hann segist hlakka til að sýna í Búðardal og Árneshreppi „Ég hef aldrei farið í leikferð í Búðardal en hlakka mikið til að prófa það. Ég hef heyrt að þar sé oft góður og skemmtilegur salur. Það er svo alltaf gaman að fara í Árneshrepp. Þar er skemmtilegt félagsheimili, sviðið er minna en flest önnur sem við sýnum á og það er mjög skemmtileg áskorun að stilla upp leikmyndinni og hreyfa sig aðeins öðruvísi,“ segir Arnór hress að lokum.

Leikritið Halti Billi er eftir Martin McDonaugh, uppsetning Leikfélags Hólmavíkur er í samvinnu við Grunnskólann á Hólmavík og undir leikstjórn Skúla Gautasonar.
Martin McDonagh er margverðlaunaður handritshöfundur og leikstjóri, maðurinn á bak við kvikmyndirnar In Bruges, Seven Phychopaths og Three Billboards Outside Ebbing, Missouri. McDonagh hefur hlotið ein Óskarsverðlaun og fjórar tilnefningar, Golden Globe verðlaun og fjölda BAFTA verðlauna. McDonagh er þekktur fyrir að skafa ekki utan af hlutunum. Hann tekst á við erfið og átakanleg málefni í verkum sínum og notar til þess sterkar persónur sem oft hafa óviðeigandi skoðanir, ljótan talanda og tilhneigingu til að beita ofbeldi. Allt þetta gerir hann með því að beita húmor af einstakri lagni.

Halti Billi gerist á Írlandi, eins og flest verka McDonagh. Sagan á sér stað í Inishman á Araneyjum árið 1934, einmitt þegar tökulið frá Hollywood er við störf á nærliggjandi eyju. Viðburður sem þessi hefur vissulega mikil áhrif á smábæjarlífið og margir sjá fyrir sér að núsé tækifærið til að flýja fátækt, slúður og almenn leiðindi. Billi er þar engin undantekning en þó er hann bæði munaðarlaus og fatlaður og því ekki beint það sem Hollywood leitar að, eða hvað? Leikverkið er frábær spegill á smábæjarlífið og fámennið sem við könnumst svo vel við á Vestfjörðum. Sýningin er ekki við hæfi ungra barna.

Dagrún Ósk
doj5@hi.is

DEILA