Kynlífsfræðingur eldar á Vagninum á laugardagskvöld

Ragga Eiríks reiðir fram kræsingar á Vagninum á laugardagskvöld.

Vagninn á Flateyri opnaði fyrir tveimur helgum eftir hálfgerðan vetrardvala. Hann verður opinn í allt sumar með fullri starfsemi. Framundan er viðburðarríkt sumar með fjölda uppákoma, tónleika, plötusnúða, uppistands, knattspyrnuspennu, barnavagns og annars sprells. Elísabet Reynisdóttir matgæðingur, næringarfræðingur og hressleikabomba stendur vaktina í eldhúsinu en inn á milli mæta handvaldir framúrskarandi gestakokkar og hrista frekar upp í hlutunum. Óli Hjörtur, annálaður indælingur, veitinga- og barmaður úr höfuðstaðnum stígur í fyrsta sinn út fyrir borgarmörkin og alla leið á Vagninn þar sem hann verður vert í sumar.

Sumarið verður fjölbreytt og hresst, en ein aðal rúsínan í gleðinni verður 27. júlí þegar haldin verður uppskeruhátíð til þakkar þeim sem lögðu Karolínafund söfnuninni Björgum Vagninum lið. Söfnunin sem fram fór síðastliðið sumar fyrir tilstilli Flateyringa og nýrra eigenda Vagnsins, fór fram úr björtustu vonum. Fyrir féð sem safnaðist er nú búið að skipta út mígleku þaki Vagnsins. Gestir sumarsins munu einnig sjá afrakstur fyrstu fegrunaraðgerða sem átt hafa sér stað yfir veturinn innandyra. Þar má meðal annars bera augu veggfóður, sem unnið er úr blaðrúllum sjálfspilandi píanóa.

Fyrst í flokki gestakokka á Vagninum er Ragga Eiríks, sem er ekki bara hjúkka, kynlífsráðgjafi, fjölmiðlakona, prjónarokkstjarna, og geðveikt góður dansari, heldur er hún líka mikill ástríðukokkur. Á menningarheimili sínu í miðborg Reykjavíkur, jafnt sem á virðulegu heimili lögreglustjóra Vestfjarðaumdæmis, þá reiðir hún reglulega fram ógleymanlegar veislur með kræsingum frá ýmsum kimum heimsins. Ragga nálgast matargerð á sama hátt svipaðan hátt og hún nálgast kynlíf, já og prjónaskap, af ástríðu, hugrekki og sköpunargleði. Ragga verður gestakokkur á Vagninum laugardagskvöldið 16. júní þar sem ýmislegt girnilegt verður á boðstólum. Til dæmis íslenskt lambalæri eldað að marokkóskum sið og hin nýklassíska fiskisúpa Vagnsins sem lumar á innihaldi sem enginn gæti trúað að væri í fiskisúpu.

Sæbjörg
bb@bb.is

DEILA