Katrín í þriðja sæti á Íslandsmeistaramóti í þríþraut

Katrín var í þriðja sæti en hún er afar efnilegur þríþrautakappi.

Katrín Pálsdóttir úr Bolungarvík var í þriðja sæti á Íslandsmeistaramótinu í Ólympískri þríþraut sem fór fram þann 24. júní á Laugarvatni. Katrín er afar efnilegur þríþrautakappi en hún keppti einnig í heimsmeistaramótinu í hálfum járnkarli í Slóvakíu fyrr í júní og lenti í topp 10.

Ólympísk þríþraut felur í sér 1500 m sund, 40 km hjólreiðar og 10 km hlaup en nauðsynlegt varð að stytta sundlegginn í 750 m af öryggisástæðum þar sem vatnið var einungis um 11 gráður og lofthitinn svipaður. Katrín kláraði á tímanum 02:24. Þorsteinn Másson eiginmaður hennar tók einnig þátt og lenti í 12 sæti með tímann 02:23.

Næst á dagskrá hjá Katrínu er Wow Cyclothon sem er stærsta götuhjólreiðakeppni á Íslandi. Hjólað er hringinn í kringum Ísland með boðsveitarformi þar sem liðsfélagar skipta á milli sín 1358 km. Katrín mun keppa þar með vinnufélögum sínum úr Landsbankaliðinu. Í ágúst stefnir hún svo á tvær þríþrautir sem eru hluti af Íslandsmótaröð. Á næsta ári ætla hún og Þorsteinn Másson eiginmaður hennar svo að keppa í heilum járnkarli sem má segja að sé ein af þeim mest krefjandi þríþrautum sem til eru. Í þeirri keppni er synt 3.8 km, hjólað 180 km og hlaupið 42 km. Það verður eflaust gaman að fylgjast með þessum ofurhjónum í Víkinni.

Ísabella
isabellaosk22@gmail.com

DEILA