Hvers eiga Vestfirðingar að gjalda.

Ós Hvalár í Ófeigsfirði. Mynd: Mats Wibe Lund. Myndin tengist fréttinni ekki.

Það er dapurlegt hvernig Rás tvö á RÚV undir stjórn Sigmars Guðmundssonar gerir lítið úr þörf og tilveru Vestfirðinga í morgunútvarpi 16., 17. og 18. maí sl. Þar tekur Sigmar og hans fólk málstað Sifjar og Ólafs í Árneshreppi á Ströndum fram yfir tilveru Vestfirðinga. Sýna Kristni H. Gunnarssyni lítilsvirðingu þegar hann er þó að reyna að vekja athygli á málstað Vestfirðinga. Það ætti að vera krafa okkar Íslendinga að vera ekki að ríkisreka poppulisma útvarpsstöð.

Í morgunútvarpi Rásar 1 þann 9. maí sl. var málefnalegt viðtal (eins og ávallt á Rás 1) við umhverfisráðherra Guðmund Inga Guðbrandsson. Ráðherra segir frá því að byggja þurfi upp og styrkja raforkuflutninginn frá Kröflu og Kárahnjúkum til Akureyrar. Þetta eru gleðifréttir fyrir okkur sem styðjum að Landsbyggðin dafni. Eyfirðingar geta nú haldið áfram að styrkjast, eflast og dafna án þess að komi til olíubrennsla við orkuframleiðslu þar.

Ráðherra segir frá því að styrkja þurfi raforkuflutningsmannvirki til Vestfjarða þ.e Vestfjarðalínu sem liggur úr Hrútafirði í Mjólká. Þessu ber að fagna. Eina sem vantar að segja frá þarna er að rafmagnið sem þarf á línuna verður ekki til í því magni sem mundi þurfa þegar búið verður að styrkja línuna.

Við gerum ráð fyrir að Ráðherrann viti að flutningsgeta úr Blönduvirkjun suður á land (sem er einungis 60% af framleiðslugetu virkjunarinnar án þess að mikil orka tapist í flutningnum) tryggir ekki Vestfirðingum nóg rafmagn til þess að styrkjast, eflast og dafna við núverandi óbreytt flutningskerfi nema á einn veg sem er að smartnet Landsnets klippi á orkuflutninginn suður frá Hrútatungu þegar álagið verður of mikið og láti Vestfirðina ávalt vera í forgang með orku. Slíkt getur Landsnet hinsvegar aldrei samþykkt þar sem rof byggðarlínuhringsins við slíkar álagsaðstæður mundi valda hættulegum óstöðuleika í raforkukerfi landsins.

Vestfjörðum verður því áfram kippt út og þeir látnir lifa við olíubrennslu með vaxandi orkuþörf. Sú olíubrennsla mun ekki minka í framtíðinni nema með minnkandi orkuþörf til Vestfjarða. Og allt tal um að yfir 50 MW frá Hvalárvirkjun eigi að fari um Hrútatungu suður á land markleysa þar sem slíkt kallar á að Landsvirkjun stöðvi yfir 40% af sinni flutningsgetu í vestur frá Blönduvirkjun. Trúir einhver ykkar að það muni gerast? Trúir einhver ykkar því að Norðurland Vestra samþykki að flutningsgetan í vesturátt verði aukin svo orkan sem þar er til og verður til verði flutt burt úr héraði og Norðurland Vestra sett í sömu stöðu og Vestfirðingar eru í núna. Svari hver fyrir sig.

Það verður að spyrja sig þegar maður upplifir þögn þings og ráðamanna gagnvart því andófi í garð Vestfirðinga sem stundað er gegn því sem ætlað er að styrkja samgöngur, atvinnuuppbyggingu og raforkuöryggi á Vestfjörðum hvort búið sé að ákveða að ekki skuli styrkja frekar byggð á Vestfjörðum heldur dregið af byggðinni í rólegheitum. Þannig má þá losna við að standa í vegalagningum, atvinnuuppbyggingu og auknu raforkuöryggi á Vestfjörðum. Frekari hnignun byggðarinnar mun verða að veruleika ef einurðin er nógu mikil í þá átt að draga úr, tefja og jafnvel stöðva það sem Vestfirðingar vilja gera byggðinni til framdráttar.

Ekki trúum við því að byggð verði fleiri 11 MW díselorkuver á Vestfjörðum án umhverfismats til þess að styðja við byggð á Vestfjörðum. Umhverfismat mundi ætíð fella slík áform.

Ágætu Vestfirðingar!

Þið eigið marga stuðningsmenn og konur sem málsvara utan Vestfjarða. Sameinist og takið höndum saman í ykkar málefnum hvar sem í flokk þið eruð stödd. Samtaka máttur ykkar getur einn snúið þróun á Vestfjörðum við. Að öðrum kosti verður ykkar landsfjórðungur undir.

Guðmundur Hagalín, Vestfirðingur, frá Ingjaldssandi við Önundarfjörð

DEILA