Hefur mestan áhuga á að koma málum í framkvæmd

Daníel Jakobsson tók við embætti formanns bæjarráðs Ísafjarðarbæjar nú þegar ný bæjarstjórn tók við 12. júní síðastliðinn. Hann segir starfið leggjast mjög vel í sig því bæjarstjórnin samanstandi af bæði nýju fólki og öðru reynslumeira; „þannig að við hljótum að geta látið gott af okkur leiða,“ eins og Daníel sagði í samtali við BB.
Nýja bæjarstjórnin leggur áherslu á samvinnu og að ná málamiðlunum sem allir geta unað við. „En til þess að það sé hægt þurfa allir að vera tilbúnir í það,“ bætti hann við. „Við náðum til dæmis að vinna vel að skiptingu nefnda og sætaskipan í þeim. Það var gott samtal sem vonandi er góðs viti.“

Sjálfstæðisflokkurinn í Ísafjarðarbæ lagði mikla vinnu í að gera stefnuskrá fyrir þessar kosningar og margir komu að þeirri vinnu. Daníel telur mikilvægast að fylgja eftir þeim góðu verkum sem þar eru sett fram. „Persónulega hef ég hinsvegar mestan áhuga á að koma málum í framkvæmd. Koma framkvæmdum við Eyrarskjól, fjölnota knattspyrnuhús og fleiri slíkum verkefnum af stað og sjá þau verða að veruleika. Það er þess vegna sem við gefum kost á okkur í þetta,“ segir Daníel.

Verið er að vinna í því að auglýsa eftir nýjum bæjarstjóra og á fyrsta bæjarráðsfundinum var farið yfir hin ýmsu tilboð frá ráðningarstofum. Daníel slær á sögusagnir um að búið sé að ákveða hvern eigi að ráða og svarar því til að ef svo væri þá færi bæjarráð ekki í dýrt ráðningarferli. „Auðvitað fara alltaf sögusagnir á stað,“ segir hann. „Það eru hæfir bæjarstjórar sem hafa nýverið misst vinnuna og fólki finnst gaman að máta slíka við starfið. En ég get sagt í fullri einlægni að mér vitanlega er ekkert ákveðið. Vonandi fáum við bara fullt af flottum umsóknum þannig að við getum valið úr.“

Ýmsir hafa einnig velt því fyrir sér hvernig verði með hótelstjórastarfið á Hótel Ísafirði þegar Daníel fer á fullt í bæjarmálunum. Hann segist munu gegna því áfram, enda séu ýmsar áskoranir í ferðaþjónustunni í dag. „Það er samdráttur í hótelgistingu á Ísafirði og mikil samkeppni orðin við ódýra heimagistingu og deilihagkerfi. Þannig að ég hef nóg á minni könnu,“ segir Daníel að lokum og BB óskar honum og nýrri bæjarstjórn velfarnaðar í framtíðinni.

Sæbjörg
sfg@bb.is