Hamingjudagar á Hólmavík nálgast

Bæjarhátíðin Hamingjudagar á Hólmavík verða haldnir í 13. skipti helgina 28. júní – 1. júlí. Þeir voru fyrst haldnir árið 2005 og hafa verið árviss viðburður síðan. Fréttaritari BB hafði samband við Írisi Ósk Ingadóttur sem er tómstundafulltrúi Strandabyggðar og framkvæmdarstjóri Hamingjudaga, til að forvitnast um hvernig undirbúningurinn gengi: „Það gengur bara vonum framar, það er allt að smella saman. Dagskráin er tilbúin og komin á netið” segir Íris og bætir við að stemmningin fyrir hátíðinni sé mjög góð: „Hún er alveg frábær, það er mikil gleði og eftirvænting”.

Það verða margir fjölbreyttir viðburðir á hátíðinni þetta árið eins og þau á undan: „Við leggjum mikla orku í að móta karnival stemmningu á Galdratúninu á Hólmavík, þar verða fastir liðir eins og venjulega, til dæmis hnallþóruhlaðborð, tekið á móti hamingjuhlaupurum, en þetta er 10 árið sem hamingjuhlaupið er. Það verða hoppukastalar og svo verða ýmis fyrirtæki og einstaklingar með opið hús“ segir Íris. „Það hafa líka alltaf verið listasýningar á Hamingjudögum, leikskólinn Lækjarbrekka verður með 30 ára afmælissýningu. Brynhildur Sverrisdóttir 13 ára listakona á Hólmavík verður líka með ljósmyndasýninguna Frjáls. Í ár verðum við líka með ljósmyndakeppni með yfirskriftinni: „Hvað gerir þig hamingjusaman?“ Allir geta tekið þátt það þarf bara að taka mynd og deila inn á samfélagsmiðlum með hastagginu #hamingjudagar, það verða vegleg verðlaun í boði þar,“ segir Íris.

Það er ljóst á Írisi að það verður nóg um að vera: „Síðan eru viðburðir alla daga, frá fimmtudegi til sunnudags. Það verður brenna og Pétur Örn Guðmundsson ætlar að vera með okkur á föstudeginum, bæði að spila og vera með pub quiz. Síðan ætlar Bjartmar að vera með tónleika á laugardagskvöldinu. Í Sauðfjársetrinu verða svo tveir viðburðir, Náttúrubarnaskólinn og Furðuleikar“ segir Íris hress.

Að lokum hvetur Íris fólk til að kynna sér hátíðina á samfélagsmiðlum, Instagram, Facebook og heimasíðu Hamingjudaga: „og til að koma og taka þátt í bæjarhátíðinni okkar þar sem hamingjan ræður ríkjum“ bætir hún við að lokum.

Hér má nálgast dagskrá Hamingjudaga í heild sinni: http://www.strandabyggd.is/dagskra/

Dagrún Ósk // dagrun@bb.is