Gert ráð fyrir að Baldur sigli aftur á miðvikudag

Bilun kom í ljós í ferjunni Baldri aðfaranótt síðastliðins laugardags. Ekki var hægt að sigla ferjunni síðastliðna helgi og ekki heldur í dag, mánudaginn 18. júní. Gunnlaugur Grettisson, framkvæmdastjóri Sæferða, sagði í samtali við BB að vonir stæðu til að hægt væri að hefja siglingar á nýjan leik næstkomandi miðvikudag, þann 20. júní.

„Það var túrbína í aðalvél sem bilaði aðfaranótt laugardags. Það er varahlutur á leiðinni til landsins og kemur væntanlega á morgun, þriðjudag. Við gerum ráð fyrir að geta siglt aftur næsta miðvikudag miðað við þær upplýsingar sem ég hef núna. En ég fæ frekari fregnir í fyrramálið og veit þá meira um málið.“ sagði Gunnlaugur.

Farþegabáturinn Særún sigldi í dag með farþega í fjarveru Baldurs og mun gera það einnig á morgun. Leiðin Stykkishólmur – Flatey – Brjánslækur verður farin. Lagt verður af stað frá Stykkishólmi kl. 15.30 og frá Flatey til Stykkishólmar kl 19.00 Nauðsynlegt er að panta ferð með Særúnu í síma 433-2254.

Í orðsendingu frá Sæferðum er beðist er velvirðingar á þessum óþægindum og bent á að nánari upplýsingar um stöðu mála má fá á skifstofu Sæferða í síma 433-2254. Einnig er hægt að fá upplýsingar á Facebook síðu Sæferða og á heimasíðu þeirra, www.saeferdir.is.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA