Fyrsta fundi nýrrar sveitastjórnar í Tálknafirði lokið

Ný sveitarstjórn tók til starfa í vikunni á Tálknafirði og var fyrsti fundurinn haldinn þann 12. júní síðastliðinn. Bjarnveig Guðbrandsdóttir var kosinn oddviti og varaoddviti var kosinn Björgvin Smári Haraldsson. Guðný Sverrisdóttir var skipuð tímabundið sem sveitastjóri meðan að leit að nýjum sveitastjóra stendur yfir. Bjarnveig sagði í spjalli við BB að fundurinn hafi gengið vel fyrir sig. „Það er að nægu að huga við þetta tilefni. Við erum að taka við skólanum líka og vorum að ráða nýjan skólastjóra. Þetta leggst vel í okkur og erum við mjög spennt fyrir komandi verkefnum. Það verður svo skipað í nefndir á næsta bæjarstjórnarfundi sem haldinn verður í næstu viku.“

Bjarnveig segir að ný sveitarstjórn ætli að vinna að betra samfélagi í sameiningu. „Framtíð Tálknafjarðar er björt, það er mikið af ungu fólki sem kemur að nýrri sveitarstjórn og þetta er bara mjög spennandi.“

Aron Ingi
aron@bb.is