Framsóknarflokkur og Sjálfstæðisflokkur hafa samþykkt málefnasaminginn

Félagar í fulltrúaráði Sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ og Framsóknarfélagið á sama stað hittust hvor fyrir sig í gær til að ræða málefnasamning sín á milli fyrir kjörtímabilið 2018-2022. Samhljómur er í stefnuskrá flokkanna sem kynntar voru í aðdraganda kosninga varðandi hvaða mál skulu sett á oddinn á kjörtímabilinu og flokkarnir munu fylgja þeim málum eftir.

Áhersla á samstarf

Þar má til dæmis nefna að flokkarnir ætla að leggja sig fram um að vel takist upp í samstarfi milli allra lista í bæjarstjórn. Þannig er tryggt að bæjarstjórn starfi fyrir alla íbúa og að sátt verði um langtímastefnumörkun og að henni verði fylgt eftir. Sem liður í því verður starf bæjarstjóra auglýst og Í-listanum boðin formennska í nefndum.

Einnig verður lögð áhersla á samstarf við nágrannasveitarfélög og bætt þjónusta og virðing fyrir nágrönnum höfð að leiðarljósi. Flokkarnir horfa til hvers konar þjónustu en með áherslu á skóla- íþrótta- og velferðarmál.

Vel verði farið með fjármuni

Lögð verður áhersla á að fara vel með fjármuni og stilla álögum á íbúa í hóf. Flokkarnir munu beita sér fyrir því að vanda til gerðar langtíma fjárfestingar og rekstraráætlunar fyrir sveitarfélagið, að sátt sé um það og að rekstur bæjarins skili afgangi. Svo skal unnið markvisst að jafnrétti meðal starfsmanna bæjarins.

Þjónusta fyrir alla

Flokkarnir ætla að beita sér fyrir því að bæta þjónustu í minni byggðarlögum bæjarins og hverfum. Þar er horft til að færa þjónustuna nær íbúunum en útfærsla á því liggur ekki fyrir. Einnig verða til dæmis almenningssamgöngur og frístundarúta endurhugsuð með það að markmiði að laga þjónustuna að íbúunum. Hverfisráð verða betur tengd við bæjarstjórn með því að bæjarstjórn tilnefndir bæjarfulltrúa. Þá verði bæjarstjórnarfundir haldnir reglulega í minni byggðarlögum og íbúafundir haldnir oftar.

Fjölnota knattspyrnuhús, gervigras og viðbygging við Eyrarskjól eru framkvæmdir sem strax verður farið í af fullum krafti.

Farið verður strax í byggingu fjölnota knattspyrnuhúss og gervigras verður sett á Torfnesvöll. Á sama tíma verður unnið framtíðarskipulag fyrir Torfnessvæðið með það í huga að þar rísi líkamsræktarstöð og að gert verði ráð fyrir sundlaug þar í framtíðinni. Horfið verður frá áformum um endurbyggingu sundhallarinnar við Austurveg á grundvelli niðurstöðu hönnunarsamkeppni.

Viðbyggingu við Eyrarskjól verður hraðað eins og kostur er með það að markmiði að öll börn fái leikskólapláss ekki síðar en við 12 mánaða aldur.

Vilji er til þess að nýbygging við Byggðasafn Vestfjarða rísi fyrir loka kjörtímabilsins. Einnig er vilji til að hefja undirbúning að byggingu nýs húsnæðis fyrir slökkvilið Ísafjarðarbæjar og finna framtíðarlausn á húsnæðismálum Skjalasafns.

Stuðlað verður að því að íbúar geti byggt sér húsnæði

Meirihlutinn vill stuðla að því að mögulegt verði að byggja íbúðarhúsnæði í sveitarfélaginu. Niðurfelling gatnagerðargjalda á íbúðarhúsnæði verður framlengd og leitað verður frekari leiða til að auka framboð á íbúðarhúsnæði og efla íbúðamarkaðinn í sveitarfélaginu.

Atvinnumál eru mikilvæg

Mikilvægt er að gæta hagsmuna fyrirtækjanna í sveitarfélaginu og auka samkeppnishæfi þeirra. Fiskeldi er vaxandi grein á svæðinu og skoðað verður hvernig má hraða þeirri uppbyggingu og hvernig bærinn getur lagt því lið. Einnig verður skoðað og fylgt eftir, hvernig tryggja má að tekjur af eldi renni til þess sveitarfélags sem eldið fer fram í. Útgerð og fiskvinnsla eiga undir högg að sækja og tryggja þarf að álögur þar séu ekki fram úr hófi.

Raforkumál eru mikið hagsmunamál á svæðinu sem fylgt verður eftir með það í huga að auka raforkuöryggi í Ísafjarðarbæ til mikilla muna.

Velferð fyrir alla

Unnið verður að því að fjölga íbúðum fyrir aldraða og dagdeildarúrræðum. Betur verður stutt við tómstundir þeirra. Stofnað verður notendaráð um þjónustu við fatlað fólk og aðgengi bætt.

Sæbjörg

sfg@bb.is