Ferðablaðið Vestfirðir komið út

Ferðablaðið Vestfirðir er komið í dreifingu og er þetta 24. sumarið í röð sem það kemur út. Blaðið er hið glæsilegasta, fullt af skemmtilegum viðtölum og fróðleik um fólk og ferðaþjónustu á Vestfjörðum. Í blaðinu er ítarlegt viðtal við heiðurshjónin Salvar og Hugrúnu í Vigur og einnig eru húsráðendur Hússins á Patreksfirði, Aron og Julie, heimsóttir. Þá má lesa um ávaxtarækt í Bjarnarfirði, súkkulaðiframleiðslu í Súðavík, hljóðfærasmíðar á Þingeyri, kaffhús heima í stofu í Önundarfirði og hvalaskoðun á Hólmavík. Glæsileg forsíðumynd blaðsins er einmitt úr slíkri ferð, tekin af Judith Scott, sem er náttúrulífsljósmyndari og leiðsögukona í þeim ferðum. Fjölmargt annað er að finna í hnausþykku blaðinu sem bæði hefur að geyma upplýsingar á íslensku og ensku.

Bæjarins besta hefur veg og vanda að útgáfunni sem fyrr. Anna Sigríður Ólafsdóttir sá um ritstjórn og efnisvinnslu, Gunnar Bjarni Guðmundsson um uppsetningu og Pixel um prentun. Blaðið prýða fjölmargar fallegar ljósmyndir sem koma úr ýmsum áttum, en flestar tók Haukur Sigurðsson fyrir Markaðsstofu Vestfjarða. Blaðinu er dreift á Upplýsingamiðstöðvar og stoppustaði ferðafólks á Vestfjörðum og einnig má nálgast það hér.

Annska
annska@bb.is