Fer út með myndavélina þegar veðrið versnar

Gunnar Freyr tekur myndir þegar flestir aðrir eru innandyra. Mynd: Gunnar Freyr Gunnarsson.

Sýningin „Erfiðar aðstæður“ eða “Inclement condition” eftir ljósmyndarann Gunnar Freyr Gunnarsson opnaði síðastliðinn laugardag í Húsinu – Creative Space í Eyrargötu við höfnina á Patreksfirði. Gunnar Freyr sem er einnig þekktur sem Icelandic Explorer, er ljósmyndari með vinnuaðstöðu í Reykjavík. Hann ólst upp í Danmörku en árið 2014 ákvað hann að snúa við lífi sínu. Hann hætti að vinna í viðskiptalífinu og keypti flugmiða til Íslands til að eltast við ævintýri. Margt hefur gerst síðan og í dag vinnur Gunnar sem ljósmyndari og sérhæfir sig í að taka myndir af ósnertri náttúru Íslands og Grænlands.

Ljósmyndasýning Gunnars Freys verður í Húsinu fram til 26. júní. Mynd: Húsið-creative space.

Þessi sýning snýst jafn mikið um myndirnar eins og nálgunina við að taka þær. Flestir kjósa að halda sig innandyra þegar veðrið versnar og fara út þegar það lagast. En er Gunnar varðar þá er það á hinn veginn. Nú þegar heimur okkar er ljósmyndaður í bak og fyrir þá verður sífellt erfiðara að ljósmynda sérstaka staði eins og Ísland og Grænland. Til að ná þeirri sérstæðu sem þessi lönd hafa notar Gunnar oft á tíðum veðrið sem lykilatriði til að skapa eitthvað sérstakt og öðruvísi en við þekkjum. Þetta byggist allt á heimspeki hans varðandi ljósmyndun, þegar veðrið er sólríkt og fallegt þá verða myndirnar sjaldnast góðar, þegar veðrið er fjarri því að vera gott þá verða myndirnar að einhverju sérstöku. Þessi sýning sýnir afsprengi þessarar hugsunar og hvetur áhorfandann til að fara út í óvissuna, uppgötva eitthvað sem gæti verið öðruvísi eða erfitt og finna eitthvað sem gefur lífinu lit.

Gunnar Freyr var sjálfur viðstaddur opnun sýningarinnar og hélt þar erindi um vinnubrögð sín og markmið við góðar undirtektir. Margir hafa lagt leið sína til að sjá sýninguna þessa fyrstu daga eftir opnun og hefur hún vakið mikla lukku enda frábær verk hér á ferðinni. Sýningin er sölusýning þar sem hægt er að kaupa útgáfur af verkunum í ýmsum stærðum. Sýningin verður opin til 26. júní næstkomandi og mælum við eindregið með að fólk geri sér ferð að sjá hana, aðgangur er ókeypis og allir eru velkomnir, börn sem fullorðnir.

Sæbjörg

sfg@bb.is

DEILA