Er með sálfræðiþjónustu í Vestrahúsinu

Það efast enginn um að andleg heilsa er nákvæmlega jafn mikilvæg og sú líkamlega. Enda helst þetta tvennt í hendur þó ekki sé alltaf jafn mikill stuðningur gefinn, ef eitthvað bjátar á andlegu hliðinni hjá fólki. Lengi vel var enginn sálfræðingur á Ísafirði til að sinna þeim fjölmörgu sem þurfa á slíkri þjónustu að halda. Þangað til árið 2017, að Baldur Hannesson flutti vestur og tók að sér starf sálfræðings hjá Heilbrigðisþjónustu Vestfjarða á Ísafirði. Baldur bjó í Bolungarvík alla sína grunnskólagöngu en fór þaðan í Menntaskólann á Akureyri. Rætur hans liggja samt vestur, því móðir hans er Agnes M. Sigurðardóttir frá Ísafirði.

„Ég flutti vestur í ágúst 2017 því ég sá tækifæri í því að ráða mig á Hvest til að sinna sálfræðiþjónustu þar. Þetta var í fyrsta sinn þannig séð, sem er fastur sálfræðingur þar, og mér fannst spennandi að fá að móta þetta starf og kannski vegna þess að þjónusta til fólksins skiptir mig gríðarlega miklu máli og ég í raun brenn fyrir það,“ segir Baldur þegar BB innir hann eftir ástæðum þess að hann flutti á Ísafjörð. „Auðvitað er ég héðan og þekki svæðið sem hefur bæði kosti og galla og ég þekki söguna. Mér fannst ég verða aðeins tengdari fólkinu. Og svo er það auðvitað spennandi fyrir nýútskrifaðan sálfræðing að koma hingað og fá að taka þátt í svona stóru verkefni, sem var að móta sálfræðiþjónustu fyrir þann hluta Vestfjarða sem heyrir undir HVest.“

En hvernig er að vera sálfræðingur í svona litlu bæjarfélagi fýsir BB að vita. „Það er eitthvað sem maður þarf að venjast,“ segir Baldur og brosir. „Og það er allt öðruvísi að vera sálfræðingur hérna en í Reykjavík. Þar getur maður leyft sér að vera formlegur og aftengjast fólkinu en ég upplifi ekki að ég geti leyft mér það á sama hátt hérna.“
Baldur segir farir sínar ekki sléttar af Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Þó hann hafi sjaldan kynnst jafn góðri heild og ríkir á spítalanum. „Og ég er rosalega þakklátur fyrir þann stuðning sem ég fékk þar frá hinum almenna starfsmanni,“ bætir hann við. „Hins vegar finnst mér og mínu stéttarfélagi að stofnunin fari ekki eftir þeim stofnanasamningi sem var til staðar, varðandi laun og umfang starfsins. Og í ljósi þess að þjónustan skiptir mig mjög miklu máli þá fannst mér erfitt að vinna þannig að ég var að gefa sem mest af mér en á sama tíma var verið að þrengja að þjónustunni hjá mér hvað þetta varðar. Og það endaði með því að ég fékk bara nóg af því að vera að biðja um rétt laun, sem varð til þess að ég sagði upp.“

Heilbrigðisstofnun Vestfjarða hefur auglýst tvisvar eftir sálfræðingi í stað Baldurs en engin umsókn hefur borist. Baldur brennur fyrir því að þjónusta fólk og þess vegna hefur hann opnað einkastofu sem er staðsett í Vestrahúsinu. „Ég vil að þessi þjónusta sé í boði hérna fyrir norðanverða Vestfirði,“ segir Baldur og leggur áherslu á orð sín. „Ég verð með stofu hérna í sumar en missi skrifstofuna í haust og veit ekki hvað verður þá, svo það er mikilvægt að fólk nýti sér þessa þjónustu á meðan hún er í boði.“ Baldur segist ekki vita hvað tekur við í haust. Hvort hann muni flytja eða búa áfram á Ísafirði.

Aðferðin sem hann notast við í sálfræðimeðferðum kallast hugræn atferlismeðferð. Hún snýst mikið um að hjálpa fólki við að breyta hugarfari sínu og byggja sig upp á jákvæðan hátt. „Það var mikil áhersla lögð á hugræna atferlismeðferð í mínu námi við Háskólann í Reykjavík,“ segir Baldur. „Háskólinn er duglegur að fá til sín flotta sérfræðinga á sínum sviðum til að kenna og halda námskeið og ég sé yfirleitt mjög góðan árangur í mínu starfi. Ég hef fengið mikla handleiðslu varðandi meðferðir með bæði börn og fullorðna og hef verið með tvær manneskjur til að leiðbeina mér. Ég hef þess vegna mikla reynslu með börn frá tveggja ára aldri og í raun allan aldur fram yfir áttrætt.“

Það velkist eflaust enginn í vafa um það hversu mikilvægt það er að hafa áfram sálfræðing á svæðinu og vonandi finnst lausn varðandi það. Baldur er með Facebooksíðu þar sem er hægt að komast í samband við hann eða fá frekari upplýsingar varðandi sálfræðiþjónustuna.

Sæbjörg
bb@bb.is