Ekki enn búið að ráða nýjan forstjóra hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða

Búið er að ráða í stöðu mannauðsstjóra hjá Heilbrigðisstofnun Vestfjarða. Var það Hjalti Sölvason sem ráðinn var í stöðuna en henni var breytt að sögn Hallgríms Kjartanssonar, framkvæmdastjóra lækninga, að því leyti að mannauðsstjóri sinnir einnig rekstarstjórastöðu.

Ekki hefur verið ráðinn sálfræðingur enn, en auglýst var eftir tveimur sálfræðingum en umsóknir um þær stöður hafa ekki borist. Fjármálastjóri hefur verið ráðinn tíma-bundið til þriggja mánuða með það fyrir augum að veita nýjum forstjóra ráðrúm til að ákveða framhaldið.

Hallgrímur segir að nýr forstjóri hafi ekki verið ráðinn og að biðin eftir svörum frá ráðuneytinu sé löng. „Við erum búin að bíða í óþreyju ótrúlega lengi eftir einhverri niðurstöðu varðandi forstjórastöðuna, en það er ráðuneytið sem sér um það þá ráðningu. Okkur hafa ekki verið gefnar neinar upplýsingar um málið og er það mjög óþægileg staða. Það er því bara millibils ástand í raun og veru núna á meðan við bíðum eftir að fá fólk til starfa,“ segir Hallgrímur.

Aron Ingi
aron@bb.is