Aksturstími milli Patreksfjarðar og Ísafjarðar styttist umtalsvert

Þjónusta verður ekki aukin á Dynjandisheiði og vegfarendur því beðnir að fylgjast með færðinni. Mynd: Aron Ingi Guðmundsson.

Vegagerðin hélt íbúafundafund á Patreksfirði þann 12. júní síðastliðinni eins og fram hefur komið hér á BB fyrr í vikunni. Á þeim fundi voru kynntar fyrirhugaðar framkvæmdir á Vestfjarðarvegi annars vegar og hinsvegar á Bíldudalsvegi.

Á fundinum kom fram að kostnaður vegna framkvæmdanna gæti numið um 9,7 milljörðum króna og að líklega myndu framkvæmdir hefjast árið 2019 og standa yfir í þrjú ár, verklok yrðu því árið 2022. Í dag eru milljarðar eyrnamerktir Vestfjarðavegi samkvæmt samgönguáætlun fyrir árin 2015 til 2026. Skipting þeirrar upphæðar er þannig að fyrir árin 2015 til 2018 var gert ráð fyrir 850 milljónum í framkvæmdir, 2.500 milljónir fyrir árin 2019 til 2022 og svo 1.650 milljónir fyrir árin 2023 til 2026. Það er því ljóst að töluvert fjármagn vantar til að þessi fyrirhugaða framkvæmd verði að veruleika. Vonir eru bundnar við að þetta viðbótar fjármagn verði sett í fjárhags-og samgönguáætlanir sem lagðar verða fram á Alþingi næstkomandi haust.

Núverandi vegalengd milli Patreksfjarðar og Ísafjarðar er 174 km. Aksturstíminn á þeirri leið eru tvær klukkustundir og 20 mínútur miðað við 85 km meðalhraða á bundnu slitlagi og 65 km meðalhraða á malarvegi. Þá er miðað við að malarvegir séu í góðu ásigkomulagi sem er ekki oft raunin. Aksturstíminn er sagður vera tvær klukkustundir og 49 mínútur miðað við sama meðalhraða á bundnu slitlagi en 45 km meðalhraða á slæmum malarvegi. Ferðatíminn er svo sagður þrjár klukkustundir og 33 mínútur miðað við sama meðalhraða á bundnu slitlagi en 30 km meðalhraða á vondum malarvegi. Í framtíðinni kemur vegalengdin til með að vera 158 km sem gerir aksturstímann eina klukkustund og 54 mínútur miðað við 85 km meðalhraða hraða á malbiki og eina klukkustund og 45 mínútur miðað við 93 km meðalhraða.

Tillaða að matsáætlun er nú til meðferðar hjá Skipulagsstofnun líkt og sagði í fyrri frétt BB og mun stofnunin taka ákvörðun um hana. Leitað er umsagna umsagnaraðila og athugasemda almennings. Tímarammi verksins er svo eftirfarandi:

júní-september 2018: Frummatsskýrsla, rannsóknir og undirbúningur
sept-október 2018: lokaúrvinnsla frummatsskýrslu
nóvember-desember 2018: Kynningarfundir og opin hús vegna frummatsskýrslu. Leitað umsagna hjá umsagnaraðilum og athugasemda almennings
janúar til apríl 2019: unnið með matsskýrslu hjá Vegagerð og Skipulagsstofnun og í maí lagt mat á umhverfisáhrif og álit Skipulagsstofnunar fengið.
Vonast er til að hægt sé að hefjast handa um haustið 2019 og gert er ráð fyrir þriggja ára vinnuferli eins og áður sagði.

Aron Ingi
aron@bb.is

DEILA