Sundlaugin

Arna Lára og Gísli Halldór.

Fólkið sem stendur að Í-listanum á sér sömu drauma og aðrir íbúar um hér verði byggð nútímaleg sundlaug í þeim dúr sem finna má um allt höfuðborgarsvæðið. Vinnan í kringum Sundhöll Ísafjarðar við Austurveg var fyrst og fremst tilraun til að kanna möguleikann á að gera ásættanlega lausn sem myndi duga okkur þar til ný og varanlegri lausn yrði framkvæmanleg.

Það er orðið ljóst að ekki er fullnægjandi stuðningur við að þær miklu endurbætur á Sundhöll Ísafjarðar sem gerðar voru tillögur um í hönnunarsamkeppni. Þær hugmyndir eru því út af borðinu, en engu að síður verður gert það sem þarf til að skólasund geti verið við Austurveg þar til önnur lausn er komin.

Ný sundlaug á Torfnesi er valkosturinn sem flestir virðast vilja og þess vegna höfum við gert ráð fyrir henni í þeirri vinnu sem staðið hefur yfir við hönnun nýrrar líkamsræktarstöðvar á Torfnesi.

Íbúasamráð

Það er grunnstef í störfum Í-listafólks, og stefnu listans til framtíðar, að efla lýðræðislega þátttöku íbúa í ákvörðunum, ekki af því að það hljómi fallega, heldur af því að það getur leitt til farsælli og betri ákvarðanatöku ef vel er á málum haldið. Í því ljósi er mikilvægt að skoða þessi mál.

Sundaðstaða skiptir íbúa miklu máli og í ljósi umræðunnar sem tekin var á kjörtímabilinu fer ekki á milli mála að þorri íbúa sætta sig ekki við minna en nýja sundlaug. Það mun taka nokkurn tíma að koma upp fullbúinni nútímalegri sundlaug, en það er vilji Í-listans eins og annarra, þó Í-listinn hafi viljað skoða endurbætur á Sundhöllinni sem biðleik þar til betri aðstaða rís.

Til að byggja upp fallegt og gott samfélag þarf að gæta jafnvægis og huga að öllum þáttum. Það er ekki nóg að gera góða skóla og fjölga leikskólaplássum, það er ekki nóg að hugsa bara um skuldir, það er ekki nóg að tryggja hagsmuni fatlaðs fólks, það er ekki nóg að byggja sundlaugar. Við verðum að gefa okkur tíma og fé til að huga að öllu sem máli skiptir. Þess vegna var Í-listinn tilbúinn til að skoða möguleikana í Sundhöll Ísafjarðar til hlítar og verja til þess fjármunum. Niðurstaðan er að sú leið er ekki í boði.

Eftir stendur markmið um nýja sundlaug – og því verður aðeins náð með markvissum og ákveðnum skrefum – sem Í-listinn treystir sér til að taka.

Torfnesið

Í-listinn, eins og flestir aðrir, telur Torfnesið ákjósanlegt fyrir nýja sundlaug. Þar er sú staðsetning sem oftast er nefnd fyrir nútímalega íslenska almenningslaug. Í allri vinnu okkar sem tengist Torfnesi er því gert ráð fyrir að pláss verði fyrir slíka laug þar. Arkitekt íþróttahússins, sem teiknað hefur líkamsræktaraðstöðu á Torfnesi, hefur þegar gert nokkur riss af slíkri sundlaug og eru fyrstu teikningar hans af þeirri aðstöðu frá þeim tíma þegar íþróttahúsið var teiknað.

Þó svo að ný sundlaug á Torfnesi sé stórt verkefni þá er hægt að gera stórvirki með því að afmarka verkefnið, setja niður áætlun og stíga svo jafnt og þétt skrefin sem færa okkur að settu marki. Um er að ræða verkefni sem gæti kostað á bilinu 1,5 til 2,0 milljarða, það verður því ekki unnt að ljúka því á næsta kjörtímabili. Í lok kjörtímabilsins trúum við hinsvegar að grundvöllur verði til að setja markið og ákveða tímasetninguna þegar ný sundlaug á að rísa.

Svona sjáum við mögulega framtíð: Sundlaug á Torfnesi verður við hlið íþróttahússins. Hún verður yfirbyggð en þó vonandi þannig að hægt verði að opna eina hlið hennar á sumardögum. Við enda

hennar, t.d. nær Skutulsfjarðarbraut, verður útisvæði með því sem slíku tilheyrir – pottum, vaðlaug og rennibraut. Miðað við þann uppgang sem hefur verið í sveitarfélaginu, og stefnir í að fari vaxandi, eru allar líkur á að sú sundlaug geti risið eftir u.þ.b. átta ár og það á að vera hægt að gefa út fyrirætlanir um hana í lok næsta kjörtímabils – fjögurra ára plan um að hún rísi 2026. Mörgum kann að þykja þetta langur tími, en þetta er raunhæft plan og laugarinnar hefur nú þegar verið beðið næstum frá aldamótum.

Draumalaugin ekki slegin út af borðinu

Í-listinn ætlaði sér aldrei að fórna hugmyndum um fullbúna framtíðarlaug, t.d. á Torfnesi. Það var fyrst og fremst til skoðunar hvort finna mætti ásættanlega lausn þar til ný og glæsilegri sundlaug yrði að veruleika – og gera í leiðinni hinni merku byggingu, Sundhöll Ísafjarðar, hátt undir höfði. Auk þess er nauðsynlegt að bæta aðstöðu gesta og starfsmanna og almennt aðgengi.

Andstaða var við hugmyndir um miklar endurbætur með útiaðstöðu og greinilegt að mörgum líkaði illa sú tilhugsun að ný sundlaug yrði látin bíða of lengi. Þeir voru samt allnokkrir, íbúarnir, sem þótti spennandi að endurbæta Sundhöllina við Austurveg.

Hönnunarsamkeppnin var haldin, enda taldi Í-listinn mikilvægt að valkostir væru með skýrum hætti á borðinu áður en komist yrði til botns í málinu.

Samkeppni og könnun

Ekki hafði náðst ásættanlegur stuðningur við meiriháttar framkvæmdir í Sundhöll Ísafjarðar, að lokinni hönnunarsamkeppni og því vildi Í-listinn ekki halda áfram með málið nema leita álits íbúanna. Ákveðið var að halda ítarlega skoðanakönnun fyrir alla kosningabæra íbúa. Könnunin var unnin af fagfólki hjá Félagsvísindastofnun Háskóla Íslands og í fullu samráði milli bæjarfulltrúa minni- og meirihluta. Mikil áhersla var lögð á að könnunin væri ekki leiðandi. Við framkvæmd könnunar kom hinsvegar í ljós að hún höfðaði ekki vel til íbúanna, þótti löng og ekki nógu skýr – af því getum við dregið lærdóm sem nýta má í íbúakannanir framtíðarinnar.

Enn höfum við ekki fengið niðurstöður úr íbúakönnun bæjarins en eigum von á þeim um mánaðarmótin. Hitt vitum við að einungis 24% kosningabærra bæjarbúa tóku þátt í þessari könnun. Sú staðreynd segir okkur að stuðningur við stórfelldar breytingar á Sundhöll Ísafjarðar er ekki fullnægjandi til þess að ráðist verði í þær framkvæmdir sem vinningstillagan lýsir. Framkvæmdir samkvæmt verðlaunatillögu hefðu kostað að lágmarki 600 milljónir króna.

Niðurstöðurnar úr skoðanakönnuninni munu verða okkur leiðarljós um næstu skref og geta hjálpað okkur í að móta framtíðarstefnu. Áfram verður þó haldið að hafa fullt samráð við íbúana – eins og Í-listinn leggur ætíð áherslu á.

Í-listinn þorir – hlustar – og gerir

Í-listinn mun hefja byggingu fótboltahúss á Torfnesi á þessu ári, 2018. Að sögn Vestra uppfyllir slíkt hús allar okkar framtíðarþarfir vegna knattspyrnu innanhúss og er sú leið sem áhrifaríkust verður til framfara í starfi barna og ungmenna, ásamt því að styðja við árangur meistaraflokka. Þess vegna er fótboltahúsið á fjárhagsáætlun 2018 og hefst vinnan í haust. Um þá framkvæmd virðist sátt meðal allra bæjarfulltrúa, þó einhverjir tali um nauðsyn þess að skipuleggja Torfnesið betur.

Í-listinn hefur í ofangreindum málum sýnt að hann hefur einurð til að fylgja málum eftir, dirfsku til að taka áhættu, en setur þó í fyrirrúm að skoða málin í kjölinn og hafa samráð við íbúa áður en ákvörðun er tekin. Í-listinn hefur sýnt að hann er tilbúinn til að leiðrétt kúrsinn þegar þörf krefur.

Allir vilja gera vel – Í-listinn getur það.

Arna Lára Jónsdóttir

Gísli Halldór Halldórsson

DEILA