Rödd íbúanna

Táknmynd lýðræðisins er þegar ólík sjónarmið sameinast um eitt markmið. Í-listinn er þverpólitískt afl, eins og sagt er, og kannski ekki öllum ljóst. Í-listinn er afl margra pólitískra sjónarmiða sem hafa sameinast um eitt markmið – að gera gott samfélag betra og sameinast um að byggja það upp. Rökræðan um markmið getur auðvitað verið um allt mögulegt en alltaf snýst það um samfélagsgæði og menningu. Auðvitað eru svo deildar meiningar um forgangsröðun og áherslur – þar á rökræðan að sjálfsögðu að vera.

Eiga dagvistunarmál barna hafa forgang fram yfir hellulagningu eða eitthvað annað sem sveitarfélagið hefur á sinni könnu, svo dæmi sé tekið. Hið pólitíska svar er alltaf: forgangsröðun. Hver ákveður svo hana? Fer fram einhver rökræða þegar hún er ákveðin? Í-listinn hefur unnið að aukinni þátttöku íbúanna í ákvörðunartöku og meira að segja snúið frá ákvörðun sem búið var að taka vegna radda íbúanna – sem pólitískir andstæðingar segja svo veikleikamerki. Á sveitastjórn ekki að hlusta á raddir þegnana á milli kosninga? Íslensk alþýða hefur þurft að þola boðhátt valdhafanna í árhundruð – það er mál að linni. Hingað til hafa valdhafarnir sótt vald sitt með fagurgala fyrir kosningar og farið svo rænandi og ruplandi svo maður tali nú hreint út.

Um hvað er svo deilt? Í rauninni ekki neitt. Í-listinn hefur sýnt fram á að samtal ólíkra afla í eina samfylkingu er árangursríkt og er staðfest á því kjörtímabili sem er að ljúka. Þessi öfl sameinast um eitt bæjastjóraefni og kynna hann fyrir kosningar. Bæjarstjórinn er framkvæmdastjóri og vinnur samkvæmt því sem meirihlutinn setur honum fyrir. Það er augljós kostur að hann er heimamaður og ann sínu samfélagi sem hann hefur alist upp með og hefur enga aðra hagsmuni undir en sveitarfélagsins og bæjarbúa. Gleymum því ekki að baklandið er breiðfylking sjónarmiða sem bæjarstjórinn verður að undirgangast til að vera í sátt við sína vinnuveitendur.

Mannauðurinn er í starfsfólkinu sem þarf að líða vel og finna til ábyrgðar með stjórnendum sínum. Það er áberandi viðsnúningur í þeim efnum. Reglulegir fundir stjórnenda og samtal þeirra í milli hefur verið komið á og allir stefna í sömu átt – að gera gott samfélag betra. Þetta hefur tekist í meirihlutatíð Í-listans.

Jón Sigurpálsson, Ísafirði