Peter Weiss bjartsýnn á nýja námsleið Háskólaseturs Vestfjarða

Háskólasetrið er til húsa í Vestra.

Sjávarbyggðafræði, ný námsleið við Háskólasetur Vestfjarða, byrjar í haust. Námið er kennt á Ísafirði og er í boði Háskólasetursins á Ísafirði í samstarfi við Háskólann á Akureyri, en nemendur útrskrifast þaðan með MA gráðu. Námið er alþjóðlegt, þverfræðilegt meistaranám þar sem fengist er við þróun byggða í fortíð og framtíð. Áhersla er lögð á sjávarbyggðir við Norður Atlantshaf og Norðurskautssvæðið þótt fræðin kunni að hafa víðari skírskotun.

Rætt verður við Peter Weiss um Háskólasetrið og nýju námsleiðina í sjávarbyggðafræðum í þættinum Landsbyggðin á sjónvarpsstöðinni N4 í kvöld.

„Með náminu í sjávarbyggðafræði styrkist starfsemi háskólasetursins. Það væri í raun og veru forkastanlegt að kenna byggðafræði í Reykjavík,“ segir Peter Weiss, forstöðumaður Háskólaseturs Vestfjarða.

„Ég held að Háskólasetur Vestfjarða hafi styrkt mannlífið á Ísafirði á undanförnum árum. Það tekur eðlilega nokkurn tíma að byggja upp nýja námsleið og ég er bjartsýnn á framtíðina. Sjávarbyggðafræðin verður mikilvægur hluti af byggðastefnu landsins í akademískum skilningi og mun vonandi koma byggðamálum betur á dagskrá sem viðfangsefni á háskólastigi. Við gerum okkur vonir um að liðlega tuttugu nýir námsmenn bætist við árlega,“ segir Peter Weiss.

Margrét Lilja

milla@bb.is

DEILA