Menntskælingar kynna lokaverkefni

Þann 17. maí munu nemendur Menntaskólans á Ísafirði kynna lokaverkefni sín. Þetta eru nemendur sem eru að ljúka námi á stúdentsbrautum og samkvæmt nýrri námskrá. Unga fólkið tók áfanga sem kallast lokaverkefni og þar vinna þau stórt verkefni sem þau velja sjálf. Á dagskránni þann 17. maí kennir ýmissa grasa og margar metnaðarfullar rannsóknir verða kynntar. Þar verða einnig myndbandasýningar, heimasíður, fræði- og heimildaritgerðir. Efnin snerta á flötum íþrótta, tísku, sögu og hagfræði, svo fátt eitt sé nefnt. Sem dæmi um kynningar má nefna fyrirlestur um veganisma og íþróttir, spurt er hvort foreldrar hafi áhrif á íþróttaiðkun barna sinna, talað verður um takmörkuðu afstæðiskenninguna, bitcoin og mismunandi kynhneigðir. Kynningarnar byrja kl. 9:00 og dagskráin stendur til klukkan 14:00, með vel völdum hléum. Fyrirlestrarnir verða fluttir í fyrirlestrarsal Menntaskólans og stofu 17.

Allir eru velkomnir.

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

DEILA