Litið um öxl

Þó það sjáist ekki alltaf á skrifum mínum þá reyni ég að hafa það að leiðarljósi að horfa ekki um of í baksýnisspegil lífsins. Það getur hinsvegar verið gott að taka spegilinn upp annaðslagið til að átta sig á stöðunni og kanna hvort eitthvað megi betur fara.

Frá síðustu sveitasjórnarkosningum fyrir fjórum árum síðan, hefur Í-listinn setið við völd með 5 bæjarfulltrúa af 9 mögulegum, hér í Ísafjarðarbæ. Gísli Halldór Halldórsson fyrrum bæjarfulltrúi sjálfstæðismanna hefur setið í stóli bæjarstjóra á þessum tíma líkt og Í-listinn gaf út að myndi vera fyrir síðustu kosningar. Í-listinn hefur jú vissulega komið ýmsum hlutum í verk líkt og sjá má á auglýsingu utan á kosningaskrifstofu þeirra.

Fjármál bæjarsjóðs

Þegar borin eru saman síðasta heila ár bæjarsjóðs í tíð þess meirihluta sem sat frá 2010 til 2014 og síðasta heila ár þess meirihluta sem setið hefur frá 2014, kemur ýmislegt í ljós. Hér að neðan má sjá helstu tölur úr ársreikningum árana 2013 og 2017 bornar saman:

Rekstrartekjur árið 2013 kr. 3.598.724 þúsund

Rekstrartekjur árið 2017 kr. 4.555.233 þúsund

Aukning samtals kr. 956.509 þúsund

Rekstrargjöld 2013 kr. 3.138.160 þúsund

Rekstrargjöld 2017 kr. 4.183.378 þúsund

Aukning samtals kr. 1.045.218 þúsund

Rekstrarafkoma fyrir fjármagnsliði 2013 kr. 339.389 þúsund

Rekstrarafkoma fyrir fjármagnsliði 2017 kr. 371.854 þúsund

Rekstrarafkoma ársins 2013 kr. 302.098 þúsund

Rekstrarafkoma ársins 2017 kr. -34.747 þúsund

Skuldir og skuldbindingar 2013 kr. 5.342.028 þúsund

Skuldir og skuldbindingar 2017 kr. 6.558.403 þúsund

Eigið fé, skuldir og skuldbindingar 2013 kr. 6.211.963 þúsund

Eigið fé, skuldir og skuldbindingar 2017 kr. 7.880.126 þúsund

Líkt og sjá má hafa tekjur okkar samfélags aukist verulega og væri sú aukning sennilega eitthvað meiri ef ekki hefði verið verkfall hjá sjómönnum í upphafi síðasta árs. Gjöldin hafa einnig aukist verulega, að hluta til vegna hækkanna launa og verðlags en einnig vegna fjölgunar íbúa. Stöðugildi hjá Ísafjarðarbæ eru 31 fleiri í lok árs 2017 en þau voru í í lok árs 2013. Við það bætist svo um 15 til 20 stöðugildi sem eru á leikskólanum Eyrarskjóli sem fóru út af lista Ísafjarðarbæjar árið 2014 þegar hann fór undir starfsemi Hjallastefnunnar. Stöðugildum hefur því væntanlega fjölgað um c.a. 45 til 50 á tímabilinu. Þó nokkuð af þessari aukningu má rekja til þeirra jákvæðu frétta að okkur er að fjölga, því fleiri börn í leik- og grunnskólum kalla á fleira starfsfólk.

Árlegur kostnaður fjármagnsliða hefur greinilega aukist verulega því þó rekstrarafkoma fyrir fjármagnsliði hefur hækkað um 32 milljónir en rekstraafkoma eftir fjármagnsliði hefur versnað um rúmar 336 milljónir. Og skýringin er auðfundin, skuldir og skuldbindingar okkar hafa nefninlega aukist um rúma 1,2 milljarða króna.

Yngsta kynslóðin

Við höfum á síðustu árum staðið fram fyrir einhverjum jákvæðasta vanda sem upp hefur komið frá sameiningu þeirra sveitafélaga sem nú mynda Ísafjarðarbæ. Skortur á leikskólaplássum, hvað er jákvæðara en það í samfélagi sem stöðugt hefur glímt í fækkun. Í-listinn hefur vissulega komið með einhverjar lausnir á þeim vanda því á auglýsingu sinni á kosningaskrifstofu sinni, státar hann sig af því að hafa opnað leikskóladeildina Tanga fyrir 5 ára börn í upphafi árs 2017. En Í-listinn er ekkert að minnast á það að þegar hann tók við völdum árið 2014 var hér starfandi 5 ára deild sem þau lokuðu vorið 2015. Í-listinn neyddist svo til að opna þá deild aftur í upphafi árs 2016 vegna mikillar aukningar á biðlistum eftir leikskólaplássi en lokuðu deildinni svo aftur um vorið 2016. Í-listinn er heldur ekkert að minnast á að nú hefur því tvívegis verið frestað að hefja undirbúning að stækkun húsnæðis Eyrarskjóls, en sú stækkun átti meðal annars að fjölga plássum á leikskólum bæjarins.

Íþróttasvæði bæjarins

Árið 2014 var búið að leggja til hliðar á fjárhagsáætlun fjármuni sem nýta átti til að vinna nýtt deiliskipulag fyrir Torfnessvæðið. Svæðið stóð til að skipuleggja sem framtíðarsvæði íþróttaiðkunnar á Ísafirði. Í-listinn ákvað að hætta við þessa vinnu sem setja átti 5 milljónir í. Þess í stað var ákveðið að setja frjármunina í samkeppni um breytingar á Sundhöll Ísafjarðar. Upplegg samkeppninar var að bæta aðstöðu fyrir starfsfólk, fatlaða og koma fyrir heitum pottum og rennibraut utandyra. Nokkrar tillögur bárust í keppnina og var áætlað að framkvæmd við vinningstillöguna yrði um 400 milljónir. Inn í þá tölu vantar reyndar kostnað við nauðsynlegt viðhald á húsinu sjálfu og lagnakerfi laugarinnar, en talan 300 milljónir hefur heyrst fyrir þá vinnu. Kostnaður við samkeppnina sjálfa endaði svo í rúmum 13,5 milljónum króna.

Til að kanna svo hvort bæjarbúar vilji fara í þær framkvæmdir sem unnið var útfrá í samkeppninni eða fara frekar í byggingu nýrrar 25 metra sundlaugar, var sett afstað könnun nú í apríl sem lauk sunnudaginn 6. Maí 2018. Í þessari könnun var bæjarbúum meðal annars boðið að velja á milli ýmisa valkosta um uppbyggingu á ýmist 16 metra laug eða 25 metra laug og kostnaðurinn við hverja hugmynd gefinn upp sem prósentuhlutfall af þeim fjármunum sem Ísafjarðarbær lagði til íþrótta og tómstundamála á síðasta ári. Í könnun þessari er allt í einu hægt að útbúa 16 metra laug með hinum ýmsu valkostum af aðstöðu fyrir um 260 til 455 milljónir króna. En valkostunum sem stillt er á mót af 25 metra laug með mismunandi auka búnaði, eru sagðir kosta frá 1,6 milljörðum til rúmra 2,2 milljarða. Verð munurinn á 2 valkostum þar sem eini munurinn er að í öðrum eru sólbekkir en hinum ekki, er sagður 130 milljónir. Á meðan könnuni var í gangi gaf Gísli Halldór Halldórsson bæjarstjóri það út í umræðum á facebook síðu undirritaðs, að „Þetta eru að mestu skáldaðar tölur eftir því sem ég best veit. Félagsvísindastofnun notar þetta til að leggja mat á vilja þátttakenda eftir því sem ég skildi.“ Nokkrum dögum síðar sagði hann svo „Að mestu skáldaðar í einstaka spurningum en byggja á áður birtum tölum um heildarkostnað.“ og „ Það er væntanlega til að meta kostnaðarvilja íbúa.“

Í upphafi árs 2018 var svo skyndilega rokið afstað í að vinna deiliskipulaga fyrir Torfnes svæði svo hægt færi að hefja undirbúning að uppbyggingu fjölnota íþróttahús. Verkefni sem þáverandi meirihluti hafði þegar hafið undirbúningi á fyrir síðustu kosningar.

Skjalasafn á hrakhólum

Árið 2015 var gerður samningur við Norðurtangan ehf um leigu húsnæðis fyrir meðal annars skjalasafn og byggðasafn. Samningur þessi kvað á um leigu á húsnæði Norðurtangans ehf í gamla Norðurtanganum til 10 ára og skyldi greiða 8,4 milljónir á ári fyrir. Húsnæðið átti að vera tilbúið árið 2016 til að flytja inn. Byggðasafnið flutti inn í upphafi sumars 2016 þrátt fyrir að leigusali væri ekki búinn að uppfylla allar þær kröfur sem framkomu í leigusamning um ástand húsins. Í upphafi árs 2017 hafði leigusali ekki uppfyllt sínar kröfur og sagði því byggðasafnið upp sínum hluta samningsins. Í grein á bb.is þann 3.2.2017 setti undirritaður fram þá fullyrðingu að Ísafjarðarbær væri að greiða leigu af húsnæði sem ekki væri í notkun þar sem leigusali hefði ekki staðið við kröfur um ástand húsnæðisins í leigusamningi. Þessari fullyrðingu svaraði Gísli Halldór Halldórsson á eftirfarandi hátt: „Það er rangt að Ísafjarðarbær greiði leigu fyrir tómt húsnæðið. Það er þó rétt, því miður, að húsnæðið í Norðurtanganum hefur enn ekki uppfyllt þær kröfur sem gerðar voru við undirritun leigusamnings. Vegna ástands húsnæðisins getur Ísafjarðarbær enn ekki litið svo á að húsnæðið hafi verið afhent og mun að sjálfsögðu ekki greiða leigu fyrr en verki húseigandans er lokið samkvæmt skilalýsingu sem fylgdi leigusamningi.“ Í minnisblaði dagsettu 13. Október 2017, sem lagt er fram í bæjarráði á 991. fundi þess er staðfest að Ísafjarðarbær hafi greitt Norðurtanganum ehf kr. 2.596.206- á árinu 2016 vegna umrædds húsnæðis. Eftir nokkura mánaða deilur um leigusamninginn og hugsanlegar breytingar á honum, var honum sagt upp og skjalasafnið sem flutt hafði inn nokkrum mánuðum áður, flutt út aftur og nú í hafnarhúsið. Lögfræðingar sjá víst nú um samskipti vegna leigusamningsins og reyna að greina úr hugsanlegum vanefndum beggja aðila á honum. Hvort Ísafjarðabær þurfi að greiða meira eða fái greitt af þeim deilum loknum er ómögulegt að segja en ljóst er að búið er að setja töluverða fjármuni í húsnæðisvanda skjalasafnsins og það enn í bráðabyrgðahúsnæði.

Erum við sátt við stöðuna?

Vissulega hefur ýmislegt gott verið framkvæmt í bæjarfélaginu á síðustu árum en mikið er enn eftir að gera. Þrátt fyrir mikinn uppgang, bjartsýni og tekjuaukningu upp á tæpan milljarð í bæjarsjóði hafa skuldir og skuldbindingar aukist um rúma 1,2 milljarða. Launakostnaður hefur aukist um rúmar 493 milljónir og munar þar mestu um fjölgun stöðugilda hjá bænum. Álögur á bæjarbúa eru með þeim hæstu sem þekkjast, fasteignagjöld og útsvar í hámarki. Ég er í það minnsta ekki sáttur við stöðuna en þið hin verðið að gera sjálf upp hug ykkar.

J. Bæring Pálmason/ basi@nh.is

Höfundur er ekki í framboði til bæjarstjórnar en er vissulega tengdur lista sjálfstæðisflokksins í Ísafjarðarbæ.

DEILA