Konurnar í félagsstarfi aldraðra í Strandabyggð prjóna á börn í Hvíta Rússlandi

Á dögunum færðu konurnar í félagsstarfi aldraðra í Strandabyggð, Rauða Krossinum í Kópavogi, ellefu pakka fulla af handprjónuðum fatnaði fyrir ungabörn. Pakkarnir eru hluti af verkefni Rauða krossins Föt sem framlag og verða sendir út til Hvíta Rússlands þar sem er mikil fátækt og gríðarlegir kuldar.

Inga Sigurðardóttir sér um félagsstarfið í Strandabyggð en þau hittast einu sinni í viku í þrjár klukkustundir í senn. Inga segir þátttökuna í verkefninu hafa gengið mjög vel: „Þetta er í annað skipti sem við tökum þátt í þessu verkefni. Við gerðum þetta fyrst í fyrra vetur og gáfum þá 15 pakka og svo gáfum við 11 núna. Við byrjum um haustið og reynum að stefna að því að vera búnar 1. apríl. Sumar prjóna líka heima hjá sér og koma svo með það þó þær vinni ekki allt í tímanum,“ segir Inga. „Sem leiðbeinandi er maður alltaf að leita að skemmtilegum verkefnum. Þarna var ég með hóp af konum sem eru flinkar að prjóna og sauma og þær eru kannski búnar að prjóna á börnin og barnabörnin og það er leiðinlegt að gera eitthvað sem fer bara ofan í skúffu. Það er allt annað að prjóna eitthvað sem nýtist og þarna er kominn tilgangur með því að prjóna og prjóna,“ segir Inga.

Inga segir að það sé mikið fjör í félagsstarfinu: „Þetta er rosalega skemmtilegt. Það eru algjör forréttindi að fá að vinna þetta,“ segir Inga ánægð og bætir við að ef einhver eigi fataefni eða afgangs garn inn í skáp sem hann vill losna við nýtist það vel í svona fatapakka og það megi hafa samband við hana á netfanginu ingasig@holmavik.is.

Dagrún Ósk

dagrun@bb.is

DEILA