Komst í undanúrslit í Norske Talenter

Arndís Rán Snæþórsdóttir.

Arndís Rán Snæþórsdóttir er 17 ára stelpa sem á ættir sínar að rekja til Ísafjarðar, en býr í Noregi í bæ sem heitir Sørumsand. Það eitt og sér er alveg í frásögur færandi, en þessi unga stelpa hefur verið upptekin við það upp á síðkastið að keppa í Norske Talenter, sem er norsk útgáfa af America’s Got Talent. Á föstudaginn síðasta keppti Arndís í undanúrslitakeppninni, sem sýnd var í beinni útsendingu í norsku sjónvarpi á TV2. Það voru ekki nema þúsund keppendur sem þreyttu áheyrnarpróf, svo það hlýtur að teljast mikið afrek að komast í undanúrslit.

Arndís Rán hefur verið flest sumur á Ísafirði hjá ömmu sinni og afa, Ragnheiði Hákonardóttur og Guðbjarti Ásgeirssyni, en mamma Arndísar er Sigrún Helga Guðbjartsdóttir, fædd og uppalin á Ísafirði. “Öll móðurfjölskyldan mín er fyrir vestan. Ég hef unnið síðastliðin þrjú sumur á tjaldsvæðinu í Tungudal og hef þá búið hjá ömmu og afa.”
Arndís Rán segir að hún hafi sungið mikið sem krakki. “Ég var sett í kór þegar ég var 6 ára og byrjaði í söngtímum síðasta haust. Ég hef alltaf elskað að standa á sviði, ég hef verið í dansi síðan ég var 4 ára og er núna á leiklistarbraut í Lillestrøm videregående skole, sem er menntaskóli.” Arndís Rán segir að tónlistin hafi alltaf verið hennar sterkasta hlið og það sem hún notar til að tjá tilfinningar sínar. “Markmið mitt á sviðinu er að fá áhorfendur til að finna fyrir mínum eigin tilfinningum.”

En þetta hlýtur að vera stórt verkefni að takast á við fyrir 17 ára stelpu? “Í haust var langt síðan ég stóð á sviði síðast, þannig að ég ákvað að senda inn videó af mér að syngja til að reyna að komast áfram í áheyrnarprufur,” segir Arndís og bætir við að hún hafi ekki haft miklar væntingar og verið mjög óviss hvort hún myndi komast áfram. “Ég fékk svo svar nokkrum vikum síðar að ég mætti koma í prufu. Ég fékk fjögur já þar og komst svo líka áfram í næstu umferð. Það voru rúmlega þúsund keppendur sem mættu í áheyrnarprufur. Það eru tíu atriði í samtals 6 undanúrslitaþáttum og svo bara tveir sem komust áfram síðastliðinn föstudag,” segir Arndís Rán og er ánægð með árangur sinn í keppninni. Hún getur svo sannarlega verið það, enda ekki lítið afrek.

Margrét Lilja

milla@bb.is

DEILA