Karl Sigurðsson frá Hnífsdal 100 ára

Karl Sigurðsson frá Hnífsdal.

Í dag er Karl Sigurðsson, Kalli Sig, 100 ára. Hann fæddist 14. maí árið 1918 á Ísafirði, nánar til tekið í húsi sem kallast Rómaborg og tilheyrir í dag Sundstræti. Þegar Kalli var á fyrsta ári flutti fjölskyldan út í Hnífsdal en þar bjó hann stærstan hluta ævi sinnar. Eiginkona hans var Kristjana Hjartardóttir – Jana. Hún lést árið 2013. Þegar Kalli og Jana tóku saman átti hún einn dreng, Grétar. Saman áttu þau fimm börn að auki – Ásgeir Kristján, Guðrúnu, Hjördísi, Sigríði Ingibjörgu og Halldóru.

Karl er kominn af harðduglegu alþýðufólki sem hafði ekki mikið á milli handanna. Sex daga vikunnar var borðaður fiskur í bæði mál, á sunnudögum fékk heimilisfólkið saltkjöt til hátíðabrigða. Stundum fundu krakkarnir krækling og kúskel í fjörunni. Ekkert fór til spillis, þó slíkt sjávarfang væri ekki í hávegum haft á þessum tímum var farið með það heim, það soðið og borðað. Á haustin tíndu krakkarnir þurran hrossaskítinn á Búðatúninu og var hann síðan notaður til að drýgja eldiviðinn yfir veturinn. Mjólk var munaðarvara. Þegar Kalli er inntur eftir ástæðum langlífisins nefnir hann gjarnan það að hann hafi fengið kaffi á pelann í bernsku.

Kalli byrjaði snemma að vinna og leggja til heimilisins. Þegar hann var aðeins tíu ára fór hann sem smali að Eyri við Seyðisfjörð. Í þá daga var fært frá, eins og það kallaðist. Lömbin voru tekin undan ánum, þær reknar á haga yfir daginn og mjólkaðar í kvíum kvölds og morgna. Það er erfitt að setja sig í spor lítils, tíu ára drengs við þessar aðstæður. Þeir voru tveir smalarnir, vöknuðu klukkan sex á morgnana, ráku ærnar í hagann og sátu þar yfir þeim allan daginn. Undir kvöld komu þeir heim með kindahópinn svo lítill tími hefur gefist til leikja.

Á Eyri bjó ekkja með börn sín. Á heimilinu voru einnig kaupakonur og sláttumenn. Auk fyrrgreindra var á heimilinu ung stúlka frá Hnífsdal. Stúlkan sú þurfti ekki að vinna frá morgni til kvölds líkt og smalarnir heldur virtist hlutverk hennar einkum fólgið í því að vera heimasætunum til skemmtunar. Ekki grunaði tíu ára drenginn á þessari stundu að þarna væri komin tilvonandi eiginkona hans, Kristjana Hjartardóttir.

Fjórtán ára fór Kalli að vinna við beitningu. Vaktafyrirkomulagið yrði seint samþykkt í dag en fjórtán ára drengurinn vann í tuttugu tíma törnum og svaf fjóra tíma. Kalli var með afbrigðum fljótur að beita og var leit að annarri eins hamhleypu. Tvisvar tók hann þátt í beitningarkappmótum í Alþýðuhúsinu á Ísafirði og tók fyrstu verðlaun í bæði skiptin.

Líkt og svo margir ungir menn í íslenskum sjávarþorpum byrjaði Kalli ungur til sjós og kom fljótt í ljós að sjómennskan átti vel við hann. Árið 1940 fór hann suður til Reykjavíkur í Stýrimannaskólann. Þar var hann í nokkra mánuði og tók það sem þá kallaðist Minna fiskimannapróf, en það gaf skipstjórnarréttindi á 120 tonna báta. Kalli var ágætur námsmaður, sérstaklega lá stærðfræði vel fyrir honum og þar skaraði hann fram úr. Hann útskrifaðist úr skipstjórnarnáminu með fyrstu einkunn.

Kalli átti farsælan skipstjórnarferil en lengstan tíma var hann á Mími eða alls 25 ár. Eftir að síldin fór breyttist margt í útgerð á Íslandi. Kalli hafði verið meðeigandi í útgerðarfyrirtæki Mímis en ákveðið var að leggja það niður. Hann fékk greiddan sinn hlut og ákvað að fara í land.

Fljótlega fékk hann stöðu sem vélstjóri í Hraðfrystihúsinu í Hnífsdal, en því starfi sinnti hann í tæplega 30 ár. Auk vélstjórastöðunnar starfaði hann sem matsmaður og einnig sem vigtarmaður.

Kalli hefur alla tíð verið vel á sig kominn líkamlega. Sem ungur maður var hann kattliðugur, stundaði glímu um tíma og var vel liðtækur í fótbolta. Sem dæmi má nefna að hann var fyrirliði sjómanna gegn liði Vestra í leik sem spilaður var fyrsta sjómannadaginn sem haldinn var árið 1936 á Ísafirði. Þrjú mörk voru skoruð í leiknum og átti Kalli Sig þau öll.

Í dag eru árin orðin hundrað. Þó sjón og heyrn hafi daprast nokkuð er Kalli ótrúlega vel á sig kominn, hann er stálminnugur og gildir það jafnt um gamla daga sem aðra. Það sem ef til vill er þó eftirtektarverðast er lífsviðhorfið – sáttin sem einkennir allt hans fas. Biturð og neikvæðni hefur einfaldlega ekki verið úthlutað plássi í hans tilveru því þar er jákvæðnin, glaðværðin og elskan alltumlykjandi.

Karl mun halda upp á tímamótin með fjölskyldu og vinum í dag á sjálfan afmælisdaginn.

Guðlaug Jónsdóttir og Karl Ásgeirsson

DEILA