Guð, þorp og sveit

Pétur G. Markan.

Í tilefni kosninga spurði BB efsta fólk á öllum listum í fjórðungnum, sem og sveitarstjóra- og bæjarstjóraefni, af hverju kjósendur ættu að kjósa það. Pétur Markan er sveitarstjóraefni Hreppslistans og hans svar er á þessa leið:

„Súðavíkurhreppur er einstakt samfélag og það eru forréttindi að hafa fengið að vinna fyrir það.

Ég hef sagt það reglulega, allt frá því ég tók við starfi sveitarstjóra, að sjálfstæði og framþróun sveitarfélaga sé öðru fremur bundið í fjárhagslegan styrk. Saga, tilfinningar og sérstaða mega síns lítils ef sveitarfélag tapar fjárhagslegri getu.

Viðsnúningur í rekstri Súðavíkurhrepps og umtalsverð fjárhagsleg styrking sveitarfélagsins á kjörtímabilinu er bæði mér og sveitarstjórn mikið fagnaðarefni. Því fylgir tilfinning lík þeirri sem hríslast um leikmann þegar dómarinn flautar leikinn af, og baráttusigur er í höfn.

Það er mikil ábyrgð sem hvílir á þeirri vegferð að geyma fjöregg samfélagsins í fjögur ár og mýmörg dæmi um leiðangra sem aldrei náðu á áfangastað, eða skiluðu af sér löskuðu eggi.

Framundan eru spennandi tímar í Súðavíkurhreppi þar sem stór verkefni munu ryðja sé til rúms, nýtt fólk gerir strandhögg – samfélagið mótast og þróast eftir því.

Ég er stoltur að hafa skilað sveitarfélaginu öflugu og vel undirbúnu fyrir næstu ár.

Framhaldinu ræður þrenning sveitamála; guð, þorp og sveit. Niðurstöðunni verður tekið af þakklæti fyrir lýðræði og frelsi.

Takk fyrir tækifærið, þakkir fyrir samveru, hlátur og tár – lifi Súðavíkurhreppur!

Okkar er og verður ykkar,

Pétur og fjölskylda“

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

DEILA