Geislandi Skutulsfjörður

Hvað svo sem fór um huga sjömenninganna sem fyrstir gengu Fossavatnsgönguna árið 1935 þá er næsta víst að ekki hefur þá dreymt þá sjón er blasti við fólki í fjöllunum ofan Skutulsfjarðar um liðna helgi. Fjölmennasta og glæsilegasta gangan af þeim mörgum í gegnum tíðina, fór þá fram. Hundruðum saman af fjölmörgu þjóðerni, ölvaðir af náttúrufegurðinni, gengu menn á skíðum sínum. Sá sem öllu ræður var sérstaklega rausnarlegur hvað veðrið varðar og eru menn þó ýmsu góðu vanir úr þeirri áttinni þegar Fossavatnsgangan fer fram.

Það er einstakt afrek hvernig þessi skíðaganga hefur þróast á síðustu árum. Með samstilltu átaki heimamanna hefur tekist að skapa alþjóðlega keppni sem vekur sífellt meiri athygli á alþjóðavísu. Umferðin hingað vestur var að vonum mikil og gekk sem betur fer slysalaust fyrir sig. Samgöngubætur ráða þar nokkru og svo auðvitað veðurblíðan og stilltir og góðir ökumenn. Að ná að virkja samborgara sína hundruðum saman er ánægjulegur viðburður sem smitar útfrá sér milli húsa og byggðarlaga.

Þegar umræðan um sameiningar sveitarfélaga stóð sem hæst á sínum tíma var það stundum nefnt, í gamni oftast en án efa í einhverri alvöru, að um síðir yrðu aðeins þrjú sveitarfélög á Íslandi. Nefnilega Ísland, Vestmannaeyjar og Bolungarvík. Bolvíkingar hafa ávallt staðið fastir á sínum hagsmunum og er það ekki sagt þeim til hnjóðs. Með bættum samgöngum aukast að vonum samskipti manna á milli og ýmislegt gerist sem fyrir örfáum árum hefði verið óhugsandi að ræða.

Sjálfur bæjarstjórasonurinn úr Bolungarvík, Kristján Jón, orðaði hlutina betur en flestir aðrir í liðinni viku. Í viðtali við Morgunblaðið sagði hann: „Þó að maður verði alltaf Bol­vík­ing­ur, þá vil ég að Ísa­fjörður lifi vel, því að ef að Ísa­fjörður lif­ir illa, þá lif­um við líka illa. Al­veg sama á við um Ísa­fjörð, það kem­ur niður á þeim ef það dregst allt sam­an í Bol­ung­ar­vík.“ Skáldið á Kirkjubóli orti á sínum tíma um Ísafjörð: „Þá sjáum vér jafnan til sólar er sólskinið ljómar um þig“ og átti þá við nágrannabyggðalögin.

Íbúar á Vestfjörðum hafa á undanförnum árum sýnt og sannað að þeir geta auðveldlega unnið náið saman hvað svo sem um samstarf fortíðarinnar má segja. Á næstu árum verða menn hér um slóðir að standa enn þéttar saman og vinna ennþá nánar saman.
Viðburður eins og Fossavatnsgangan sýnir og sannar að það er ennþá hægt að lyfta Grettistökum hér vestra. Það er ennþá auðveldara þegar nágrannar hjálpast að.

Þegar sjömenningarnir luku keppni sinni fyrir 83 árum var talsvert ferðalag sem beið þeirra til byggða. Sem betur fer hefur það breyst til batnaðar. Hingað kemur fólk fljúgandi víðs vegar að á örskotsstundu og frá höfuðborgarsvæðinu eru hógværir ökumenn aðeins dagspart að aka til Ísafjarðar. Eitt hefur þó ekki breyst frá því fyrir 83 árum síðan. Nágrannar á sunnanverðum fjörðunum komast ekki að svo auðveldlega að Djúpi. Vonandi verður þar breyting á innan örfárra ára. Til þess þarf þó samstillt átak. Göngin milli Dýrafjarðar og Arnarfjarðar verða að óbreyttu dýrasti botnlangi Íslandssögunnar þegar þau loks verða opnuð umferð. Því verður að breyta.

Stakkur

DEILA