Framtíðarsýn í fyrirrúmi

Nú eru aðeins örfáir dagar eftir af kosningabaráttunni en hún hefur verið hressileg sem fyrr. Við frambjóðendur fáum að heyra hvað megi betur fara í bænum, hvað hefur verið vel gert og allt þar á milli. Við í Framsókn höfum undanfarnar vikur fundað í öllu sveitarfélaginu, hlustað eftir röddum íbúa og mótað stefnu sem við ætlum að vinna eftir á næstu misserum. Einkunnarorð okkar eru framtíðarsýn í fyrirrúmi en í stefnunni leituðumst við til þess að horfa til lengri tíma í ákvörðunartöku bæjarfélagsins.

Að loknum kosningum eru risa stór hagsmunamál í deiglunni hjá Ísafjarðarbæ er varða atvinnumál, raforkumál og samgöngumál. Í þessum málum þarf að halda ríkisvaldinu fast við efnið og koma sjónarmiðum okkar skýrt á framfæri. Ennfremur þarf að ráðast í uppbyggingu innan bæjarins í t.d. skóla, velferðar og íþróttamálum sem kallar á enn betri rekstur og forgangsröðun fjármuna. Við teljum lang farsælast að auglýst sé eftir bæjarstjóra sem framkvæmir þessi verk í þágu bæjarbúa, haldi rödd þeirra á lofti og verði öflugur málsvari svæðisins.

Margt gott hefur áunnist síðastliðið kjörtímabil, bæði góð mál frá meirihluta og minnihluta hafa komið fram og oftar en ekki næst samstaða um mikilvæg mál. Í minnihluta hefur stefna okkar í Framsókn verið að sýna samvinnuandann í verki og styðja þau mál sem við höfum talið að væru góð fyrir sveitarfélagið óháð uppruna, vinum mínum í minnihlutanum stundum til örlítillar armæðu.

Hinsvegar er margt sem hefði betur mátt fara hjá núverandi meirihluta og hefðum við getað náð betri árangri oft á tíðum með betra samtali og yfirvegun í ákvörðunartöku. Ég leyfi mér tildæmis að fullyrða að miklir peningar og tími hefðu sparast ef hlustað hefði verið á varnaðarorð okkar varðandi fyrirfram dæmdu hugmyndir meirihlutans um útipotta bakvið Sundhöllina, skjalageymslu-ævintýrið í Norðurtanganum og skort á samtali við íþróttahreyfinguna er varðar uppbyggingu og skipulag á Torfnesi sem dæmi.

Aðalatriðið er þó þetta, með samvinnu og skýrum markmiðum getum við byggt upp bæinn af meiri krafti. Ítarleg stefnuskrá okkar hefur verið borinn út á öll heimili þar sem áhersluatriði okkar eru tíunduð. Ég hvet þig kjósandi góður til þess að fara vel í gegnum það sem við höfum fram að færa og styðja okkur til þess að koma málunum af stað. Setjum X við B á kjördag!

Marzellíus Sveinbjörnsson, oddviti Framsóknar í Ísafjarðarbæ