Dýrafjarðargöng í viku 21

Í viku 21 voru grafnir 86,0 m í göngunum. Lengd ganganna var því í vikulok 2.393,6 m sem er 45,2 % af heildarlengd ganganna.

Í byrjun vikunnar var farið í að færa spenni innar í göngin sem tók um 10 klst og var engin vinna við stafninn á meðan. Sem fyrr eru aðstæðar góðar í göngunum, þurrt og berg að springa vel. Þunnt, rautt og grænt setlag hefur verið að liðast upp eftir sniðinu og er komið upp undir þekju í lok vikunnar. Byrjað var á útskoti F í lok vikunnar. Útskot F er eingöngu útvíkkun og eru engin hliðarrými í því. Lakara efni úr göngunum hefur verið keyrt í fláafleyga eða notað við slóðagerð en betra efni hefur verið sett á lager til síðari nota.

Haldið var áfram með skeringu suður af Mjólká og var efninu komið fyrir í fláa meðfram veginum neðan við Mjólkárvirkjun. Byrjað var á að flytja malað efni, fyrir neðra burðarlag vegarins, frá haugsvæðinu vestur af munnanum á millilager suður af Mjólká.

Í Dýrafirði var unnið áfram við bergskeringu í forskeringunni.

Á meðfylgjandi myndum sést síðasti stafn vikunnar og skeringin suður af Mjólká.

Margrét Lilja

milla@bb.is