Áhrif hlýnunar á þorskseiði í Djúpinu í nýrri vísindaþáttaröð á RÚV

Guðbjörg Ásta Ólafsdóttir, forstöðumaður Rannsóknarseturs HÍ á Vestfjörðum. Ljósmyndari: Kristinn Ingvarsson.

Í nýrri þáttaröð um rannsóknir vísindamanna við Háskóla Íslands, sem hefur göngu sína á RÚV annað kvöld – miðvikudaginn 9. maí, koma Vestfirðir talsvert við sögu. Heill þáttur er helgaður rannsóknum á áhrifum loftslagsbreytinga og í þeim þætti er fylgst með mjög mikilvægum rannsóknum Guðbjargar Ástu Ólafsdóttur á áhrifum loftslagsbreytinga á lífríkið í Ísafjarðardjúpi. Guðbjörg Ásta er forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands í Bolungarvík, en hún hefur rannsakað áhrif mannvirkjagerðar og hlýnunar á þorsk- og ufsaseiði.

„Þorskur er helsti nytjafiskur Íslendinga. Uppeldisstöðvarnar eru alveg við land og undir sívaxandi álagi. Stór strandsvæði fara undir byggð, vegagerð, hafnarmannvirki og aðra atvinnustarfsemi,“ segir Ásta í nýju þáttaröðinni sem nefnist Fjársjóður framtíðar.

Víða í Ísafjarðardjúpi liggur þjóðvegurinn alveg ofan í flæðarmálinu og svo hagar einmitt til að í Álftafirðinum, þar sem upptökur fóru fram í nýju þáttaröðinni, lifir þorskurinn fyrstu mánuðina á líkan hátt og annars staðar í Ísafjarðardjúpi.

„Gífurleg afföll verða á seiðunum á þessum fyrstu mánuðum í lífi þeirra, allt að 99%. Hækkandi sjávarhiti er yfirvofandi og er líklegur til að hafa áhrif á lifun. Því viljum við sjá hvort einstaklingar bregðast ólíkt við hækkandi hitastigi. Við viljum sumsé sjá hvort arfgengur breytileiki í hitaþoli hafi áhrif á viðkomu seiðanna í þeim tilgangi að meta möguleg áhrif hækkandi sjávarhita á þorskinn.“

Í nýju vísindaþáttaröðinni verður ljósi varpað á fjölbreyttar og spennandi rannsóknir vísindamanna við Háskóla Íslands á ólíku efni sem varðar okkur öll,“ segir Jón Örn Guðbjartsson, sem er kynnir í þáttunum. „Markmiðið með þáttunum var að veita sýn á hið fjölbreytta rannsóknastarf sem vísindamenn Háskóla Íslands sinna við afar ólíkar aðstæður. Þættirnir nýju munu ná til vísindarannsókna á öllum fræðasviðum Háskólans.“

Hlynur Reynisson, meistaranemi í líffræði við Háskóla Íslands, var þátttakandi í rannsókn Guðbjargar Ástu og leiðbeindi hún honum í verkefninu. Hlynur segir að þau hafi kannað einstaklingsbreytileika í atferli þorskseiða við þrenns konar hitastig til að sjá hvort sá breytileiki sé mögulega tengdur efnaskiptabreytileika. Hlynur segir að þrátt fyrir fjölmargar rannsóknir á áhrifum hitastigs á vöxt seiða nytjastofna hafi lítið verið skoðað hver áhrif mismunandi hitastigs séu á atferli seiðanna.

„Atferli gerir einstaklingnum kleift að bregðast hratt við breyttu umhverfi og þekking á einstaklingsbreytileika í atferli seiða við ólíkt hitastig getur gefið vísbendingu um hvernig þeim muni reiða af við hækkun sjávarhita og hvort sú hækkun muni hafa áhrif á erfðafræðilega samsetningu þorskstofnsins.“

Jón Örn Guðbjartsson stýrði upptökum á þáttaröðinni Fjársjóður framtíðar ásamt Birni Gíslasyni og Konráði Gylfasyni. Í nýju þáttaröðinni er m.a. fjallað um eldgos, náttúruvá, loftslagsbreytingar og áhrif þeirra á jökla, lífríki og samfélag, fjarkönnun sem byggir á rannsóknum með gervihnöttum, sjálfbærni, hvali, norðurljós, fugla og krabbamein. Sjón er sögu ríkari.

Vestfirðir koma meira við sögu í nýju þáttaröðinni, en nánar verður fjallað um það síðar hér á bb.is.

Margrét Lilja

milla@bb.is

DEILA