Á lista Máttar meyja og manna er úrvals fólk sem vill vinna Bolungarvík til heilla

BB fór á stúfana og spurði efsta fólk á öllum listum í fjórðungnum, sem og fólk í persónukjöri, af hverju aðrir ættu að kjósa það. Sigríður Hulda Guðbjörnsdóttir er oddviti Máttar meyja og manna í Bolungarvík og hennar svar er á þessa leið:

“Vegna þess að með mér á lista Máttar meyja og manna er úrvals fólk sem allt vill vinna Bolungarvík til heilla. Við þurfum að hlúa vel að eldri borgurum því vegna þeirra framlags og dugnaðar erum við enn hér. Við viljum koma á dagvistun og betri þjónustu inn á heimili þeirra svo þau megi búa í eigin húsnæði lengur. Við þurfum líka að gæta að unga fólkinu því viljum að það dafni vel hér. Okkur langar að koma á fót samfélagshúsnæði sem unga fólkið, fjarnemar og frumkvöðlar geta nýtt sér til hugmyndasköpunar. Því þar sem tveir koma saman verða hugmyndirnar til. Við viljum að Bolungarvík verði eftirsóknaverður staður til að búa á og ala fjölskyldu. Í Bolungarvík er skortur á húsnæði, þann vanda þarf að leysa með byggingu íbúða. Við viljum gera umhverfisstefnu þar sem hugað verður að hreinsun og fegrun bæjarins, aukningu gróðurs, lagningu gatna og gangstétta. Með gagnsærri stjórnsýslu og reglulegum íbúafundum gefum við íbúum tækifæri til að vera þátttakendur. Íbúarnir eiga að hafa tækifæri til að koma sínum skoðunum á framfæri og eins að geta kosið um stærri verkefni. Bolvíkingar þurfa að sjá og finna að þeirra atkvæði skiptir máli. Við búum saman í litlu bæjarfélagi með tæplega þúsund íbúum, tölum saman og vinnum saman að uppbyggingu í bænum okkar.“

Sæbjörg
sabjorg@gmail.com