Vestri-B tryggði sér silfrið í 3. deild

Vestra púkarnir í körfuknattleiksliði Vestra-B töpuðu úrslitaleiknum gegn feykisterku liði Álftaness í Bolungarvík á laugardag. Lokatölur 72-82.

Það var ekki gæfulegt að sjá til drengjanna í byrjun leiks og voru þeir lengst af í fyrri hálfleik sem áhorfendur og sáust tölur eins og 12-25 og 24-37 og í hálfleik var staðan 23-43. Það var engin gleði í tepásunni í klefanum og Birgir Örn, þjálfari, mundaði hárblásarann og lét menn heyra það.

Þegar staðan var 28-58 fóru menn að vakna og átta sig á að þeir geta spilað jafn vel og gestirnir. Með hörku og áræðni náðu Vestra púkarnir að koma sér inn í leikinn og þegar þriðja leikhluta lauk, var staðan orðinn 48-58 og allt opið.

Mikil barátta var hjá strákunum, sem náðu að minnka muninn í átta stig 50-58, en þá fóru villuvandræði að hrjá Vestra. Gunnlaugur Jr. og Alex þurftu að setjast á bekkinn með fimm villur.

Álftnesingar sýndu karakter í þeim fjórða og náðu að setja mikilvægar körfur og komust aftur vel fram úr 58-76, en Vestri sýndi mikinn baráttuvilja og náðu strákarnir að minnka bilið aftur þegar skammt var til leiksloka 67-78. Því miður var tankurinn tómur og fór svo að Álftanes fór með sigur 72-82.

Bæði liðin eru komin upp um deild og verður að segjast eins og er að þetta er frábær árangur hjá Vestra. Þeir hafa heldur betur tekið framförum og verður gaman að fylgjast með þeim í 2. deild næsta vetur.

Stigahæstir voru Helgi Bergsteinsson með 27 stig, sem og Gunnlaugur Gunnlaugsson Jr. og Baldur Ingi Jónasson með 15 stig hvor.

Umgjörð leiksins var til fyrirmyndar hjá Vestra í Musterinu í Bolungarvík og höfðu gestir það sérstaklega á orði við fréttaritara eftir leik. Birna Lárusdóttir, stjórnarmaður í Vestra og Körfuknattleikssambandi Íslands, afhenti verðlaun til liðanna. Stórgóð skemmtun og fínn dagur fyrir Vestra.

Gaui