Stofnuðu hvatningarhóp til að stuðla að heilbrigðum lífsstíl

Patró Fit afhendir forstöðumanni Bröttuhlíðar fyrstu upphæðina í söfnun fyrir tröpputæki.

Hópur vaskra kvenna á Patreksfirði tók sig saman á dögunum og stofnaði hvatningarhóp í heilsurækt. Hópurinn kallar sig Patró Fit, en konurnar byrjuðu að hittast í október og stofnuðu meðal annars Facebookhóp og gerðu snapchat, svo áhugasamir gætu skipst á hugmyndum um allt sem viðkemur heilsurækt og heilbrigðum lífsstíl. Starfssemin vatt upp á sig og úr varð að þær héldu svokallaða Biggest Looser keppni sem var svo vinsæl að þær héldu framhaldskeppni sem kallaðist Biggest Looser tvö. Hvatningarhópurinn er að einbeita sér að því að safna fyrir tröpputæki í lyftingarsalinn á Patreksfirði. „Í Biggest Looser keppninni var 5000 króna skráningargjald og við ákváðum að láta peningana renna upp í tröpputækið,“ segir Kristín Brynja Gunnarsdóttir, Patró Fittari í samtali við BB.

„Við byrjuðum bara stelpur í október og svo hefur þetta heldur betur vaxið. Það þarf ekki að hreyfa sig til að vera með, en við ætlum að hittast og hafa sameiginlegar göngur og æfingar. Það er skráningargjald í Patró Fit sem rennur beint í söfnunina fyrir tröpputækinu en hún stendur til 26. maí. Þá ætlum við að hafa lokahóf og fara saman á Hafnarvogina eins og við gerðum í byrjun. Áhuginn á Patró Fit er mikill, sem er bara æðislegt og við skorum á fyrirtækin á svæðinu að leggja okkur lið við þessa söfnun,“ segir Kristín að lokum.  

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

 

 

DEILA