Skilaði 35.7 milljónum í rekstrarafgang

Patreksfjörður.

Mánudaginn 23. apríl hittist bæjarstjórn Vesturbyggðar til að fara yfir ýmis mál og samþykkja fundagerðir. Meðal annars var lagður fram til fyrri umræðu ársreikningur sveitarfélagsins fyrir árið 2017, ásamt endurskoðunarskýrslu sem Haraldur Örn Reynisson endurskoðandi KPMG kynnti í gegnum Skype. Bæjarstjórn lagði fram bókun þess efnis að niðurstaða ársreikningsins væri betri en fjárhagsáætlun 2017 hefði gert ráð fyrir. A og B hluti Vesturbyggðar skilaði þannig 35.7 milljónum króna í jákvæðan rekstrarafgang. Í fundargerðinni er það skýrt á þann hátt að hærri framlög hafi borist úr Jöfnunarsjóði, þjónustutekjur hafi aukist og fjármagnskostnaður sé lægri.

Þá er einnig sagt frá því að miklar framkvæmdir hafi verið í Vesturbyggð á síðasta ári og tekjur sveitarfélagsins og launakostnaður hærri en gert var ráð fyrir í fjárhagsáætlun. Ástæða þessa er einskiptis greiðsla til Brúar, lífeyrissjóðs starfsmanna sveitarfélaga upp á 40 milljónir króna. Skuldahlutfall Vesturbyggðar var 113% í lok ársins 2017 og hafði þá lækkað úr 119% frá árslokum 2016. Bókfærðar heildarskuldir og skuldbindingar eru þó 123 milljónum króna hærri í árslok 2017 en þær voru 2016.

Í fundagerðinni kemur enn fremur fram: „Samkvæmt rekstrarreikningi ársins 2017 námu rekstrartekjur A og B- hluta 1.494 milljóna króna, samanborið við 1.314 milljóna króna á árinu 2016. Aukning tekja milli ára nemur því 180 milljónum. Rekstrargjöld A og B- hluta, það er laun og launatengd gjöld, annar rekstrarkostnaður og afskriftir, námu á árinu 2017 1.400 milljóna króna en voru 1.159 milljónir á árinu 2016. Hækkun frá fyrra ári 241 milljónir króna.“

Þá er líka sagt frá því að rekstrarniðurstaða A- hluta hefði verið jákvæð um 25 milljónir króna ef ekki hefði komið til einskiptis greiðsla til Brúar lífeyrissjóðs. Rekstarniðurstaðan var þannig jákvæð um 34 milljónir króna á árinu 2016. Til að útskýra hvað tilheyrir B- hlutanum stendur að það séu til dæmis Hafnarsjóður, vatnsveitan, fráveitan, félagslegar íbúðir og Fasteignir Vesturbyggðar ehf. Rekstrarniðurstaða allra þessara þátta var jákvæð um 51 milljón króna. Seinni umræða um ársreikning 2017 fer fram á fundi bæjarstjórnar Vesturbyggðar þann 30. apríl.

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

DEILA