Nýtt framboð í Vesturbyggð

Í Vesturbyggð er komið fram nýtt framboð, sem áætlar að bjóða fram lista í komandi sveitarstjórnarkosningum. Það verða því í það minnsta tveir listar sem bjóða sig fram í kosningunum í vor.

Í samtali við Maríu Ósk Óskarsdóttur kemur fram að listinn muni samanstanda af fólki í Vesturbyggð, sem vill gera vel fyrir samfélagið sitt. „Ég er upphafsmanneskjan að framboðinu,“ segir María Ósk, „en ég er komin með fullt af flottu og frambærilegu fólki með mér. Ég mun taka fyrsta sæti listans og Iða Marsibil Jónsdóttir annað sætið.“ María Ósk segir að þær séu að leggja lokahönd á á að fínpússa restina af listanum, en hann verður birtur á allra næstu dögum. „Við þurfum núna bara að velja og hafna. Það eru mjög margir sem vilja bjóða sig fram og einnig margir sem vilja vinna á bak við tjöldin.“

En hvað varð til þess að þær ákváðu að taka sig saman og bjóða fram lista núna? „Við teljum mikilvægt að íbúar Vesturbyggðar geti nýtt sér kosningarétt sinn, en það var ekki mótframboð í síðustu kosningum og þess vegna ekki kosið. Talsverðar óánægjuraddir hafa verið meðal fólks vegna þessa og ákvað ég því að taka af skarið og gera eitthvað í málunum.“ Innt eftir því hver helstu stefnumál flokksins verði, svarar María Ósk því að það verði gagnsæji og sterk grasrót.

 

Margrét Lilja

milla@bb.is

DEILA