„Maður verður að taka virkan þátt í lífinu á staðnum“

Marta Guðrún Jóhannesdóttir, skólastjóri Grunnskólans á Drangsnesi.

Marta Guðrún Jóhannesdóttir er skólastjóri Grunnskólans á Drangsnesi. Blaðamaður BB.is hafði samband við hana til að forvitnast aðeins um konuna, lífið og starfið í sjávarþorpinu. Marta er alin upp í Garðinum á Suðurnesjunum og hefur síðan búið hér og þar, meðal annars á Englandi og Finnlandi, en hún lærði finnsku, íslensku og bókmenntafræði við Háskóla Íslands og bætti svo við sig kennararéttindum og meistaragráðu í safnafræði. Hún var lengi íslensku kennari en hafði verið í nokkurra ára hléi frá kennslu að vinna á rithöfundasafninu Gljúfrasteini, sem tileinkað er Halldóri Laxnes, þegar hún flutti á Drangsnes haustið 2015.

En hvernig endaði hún hér? „Sko þegar ég tek kennsluréttindin árið 2004 gerði ég það svona gagngert til að geta verið hreyfanleg og geta verið úti á landi, ekkert með ákveðin stað í huga, þá. En maður æskuvinkonu minnar úr Garðinum, Valgeir, ræður sig á Drangsnes 2008 og ég og Bjarni maðurinn minn komum í heimsókn og við bara heilluðumst af staðnum í þeirri ferð. Bjarni á líka tengingar hingað á Strandir, hann hafði verið hérna áður og gat tengt sig við þetta svæði sem hefur sitt að segja. Við áttuðum okkur líka á því að það var ekki um langan veg að fara frá suðvestur horninu og margt sem Drangsnes hefur með sér. Við erum með heitt vatn og okkar eigin hitaveitu, sundlaugaparadís, gott mannlíf og spennandi skólastarf. Þetta var bara tímaspursmál hvenær við gætum látið þennan draum rætast,“ segir Marta kát. „Tækifærið kom svo 2015 þegar vantaði í skólann og Bjarni gat flutt vinnuna sína með sér norður á Strandir. Þannig hann er með starfsstöð í Reykjavík og á Hólmavík. Það er algjör grundvöllur fyrir því að maður geti gert eitthvað svona, að báðir aðilar fái eitthvað að gera,“ bætir hún við.

Í Grunnskólanum á Drangsnesi eru 8 nemendur og þrír í aðlögun sem koma inn í 1. bekk næsta haust. Skólinn er því ekki stór. Mörtu líkar vel sem skólastjóri: „Það er bara alveg frábært, það er náttúrulega mikil ábyrgð sem fylgir því starfi og í miklu að snúast þó að börnin séu fá. Við störfum bara eins og allir aðrir skólar á landinu og þurfum að standast sömu kröfur. Ég er skólastjóri og svo eru tveir kennarar. Við erum líka heppin að geta fengið frábæra þjónustu frá Hólmavík þar sem er mjög öflugt starfsfólk, en það er oft sem maður þarf að hlaupa í ýmsar stöður sem aðrir skólastjórar þurfa kannski ekki að gera,“ segir Marta og hlær. Hún heldur svo áfram: „Þetta er skemmtilegt og það er frábært tækifæri að fá að koma inn í skóla og fá að láta alla sína drauma um hvernig skólastarf á að vera, verða að veruleika. Hér er frábært starfsfólk og allir mjög jákvæðir og hlutirnir gerast mjög hratt, sem gerðist ekki þar sem ég var áður í skóla þar sem voru 1000 nemendur. Þar þurfti maður oft að bíða lengi eftir að sjá hugmyndirnar sínar verða að veruleika“.

Marta er mjög ánægð á Drangsnesi og telur kosti þess að flytja út á land marga: „Maður hefur miklu meiri tíma hér, þetta held ég að allir séu sammála um sem flytja í fámennið. Það er mun meiri tími sem maður hefur með fjölskyldunni og það er fljótt komin ákveðin rútína“. Hún bætir við að nóg sé um að vera á svæðinu, hún njóti þess að fara í kaupfélagið að versla og hitta fólk og sömuleiðis í sundlaugina og pottana: „Svo líður ekki á löngu þar til maður er komin í allskonar spennandi störf eins og að vinna með kvenfélaginu. Maður verður að taka virkan þátt í lífinu á staðnum,“ segir Marta að lokum.

Dagrún Ósk

DEILA