Lýðháskólinn á Flateyri, frelsi – þekking – þroski!

Á fjölmennum félagsfundi Lýðháskólans á Flateyri sem haldinn var á skírdag, var samþykkt einróma að auglýsa og kynna starfsemi skólans þann 15. apríl næstkomandi og hefja starfsemi og kennslu haustið 2018. Skólinn hefur verið í undirbúningi undanfarin tvö ár, en hann verður nýr kostur í menntamálum. Starfsemi skólans næsta vetur hefur að mestu leyti verið fjármögnuð með styrkjum frá Ísafjarðarbæ, Uppbyggingasjóði Vestfjarða, Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, Vinnumálastofnun sem og sveitarfélögum, ráðuneytum, fyrirtækjum og einstaklingum.

Lýðháskólinn á Flateyri er samfélag nemenda og kennara sem býður fólki tækifæri til að þroskast og mennta sig í samstarfi við íbúa á Flateyri. Einkunnarorð skólans eru frelsi, þekking og þroski.

Í Lýðháskólanum á Flateyri hefur fólk frelsi til menntunar út frá einstaklingsbundnum forsendum. Því byggir skólinn ekki á prófum, einkunnum eða gráðum, heldur skapar hann nemendum sínum aðstæður og umgjörð til skapandi náms og menntunar.
Í Lýðháskólanum á Flateyri sækir fólk sér þekkingu, þekkingarinnar vegna. Hana öðlast nemendur með því að ræða hugmyndir, prófa og framkvæma. Innsýn, reynsla og færni verður til með sjálfsskoðun, samvinnu, frumkvæði og forvitni. Við Lýðháskólann á Flateyri mætast himinn og jörð, nútíð og saga, framtíðarsýn, reynsla og staðreyndir. Viðfangsefnin ögra og reyna á getu fólks.

Við Lýðháskólann á Flateyri taka nemendur virkan þátt í að móta nám og skóla og geta haft áhrif á viðfangsefnin hverju sinni. Lögð er áhersla á samveru, sjálfsskoðun, sjálfsrækt og lífsleikni þar sem einstaklingar bera virðingu hver fyrir öðrum ásamt því að bera ábyrgð á sjálfum sér og þátttöku sinni í námi og samfélagi.

Lýðháskólinn á Flateyri vill hafa jákvæð áhrif á umhverfi, samferðamenn og samfélag nær og fjær. Skólanum er umhugað um sjálfbærni, samspil umhverfis, efnahags, samfélags og velferðar og ber virðingu fyrir þörfum annarra um leið og skólafólki er uppálagt að njóta sín og sinna. Það er á skólans ábyrgð að samfélagið sem hann býr í blómstri. Lýðháskólinn stuðlar að þróun einstaklingsins og samfélagsins með því að gefa bæði og þiggja.
Lýðháskólinn á Flateyri er þannig samfélag frjálsra einstaklinga í leit að þekkingu og þroska.

Margrét Lilja

milla@bb.is

DEILA