Kveðja til Adda frænda míns

Guðjón Arnar Kristjánsson.

Ég sá á netinu fréttir af því, að Addi hans Kitta frænda hefði lagst til hvílu í móður okkar Jörðina. Ég hafði þó verið svo heppinn að geta kvatt hann rétt áður en ég fór utan, þar sem hann lá sína síðustu hörðu legu og orðinn mjög veikur, þessi sterki og glaði maður.

Mikil frændrækni og samskipti voru ætíð milli fjölskyldna foreldra okkar, Kitti sérlega lifandi maður og þau mamma góðir vinir, bæði kát og sögumenn skemmtilegir. Einnig voru mamma og „hún Hanna mín“ miklar vinkonur. Mamma hafði upphaflega verið eins konar sendiboði milli þeirra þegar þau voru í leyndum að draga sig saman og ég fann nýlega bréfmiða þar sem Kitti í stuttu en hnitmiðuðu máli biður mömmu fyrir smágjöf til Hönnu, en mamma var þá í Reykjarfirði en Kitti að byggja hlöðu í Furufirði: -en í öllum bænum ekki láta nokkra sál vita af þessu elsku rósa mín-.

Þessi vinátta endurnýjaðist þegar við bjuggum á Seljalandsveginum og skammt að fara upp í hlíðina þar sem Kitti hafði af ótrúlegum dugnaði byggt sannkallaða paradís yfir sístækkandi fjölskylduna sína. Síðustu veturna sem ég var heima kom gjarnan smápúki þaðan og elti okkur stóru strákana, en hann var ellefu árum yngri mér. Stubbur var Addi þá en strax sterkur og harður af sér. Síðan höfum við oft hist, ekki síst á ættarmótum og Addi alltaf jafnhress og sögumaður góður svo sem hann átti ættir til.

Upp í hugann kemur lítið atvik á slíku móti í Finnbogastaðaskóla í Trékyllisvíkinni. Ég var þá nýlega kominn heim frá störfum í Finnlandi og með flösku af Tervasnapsi, eða tjörusnafsi, eins og tjörugerðarmenn í skógunum þar fyrrum suðu sér, vel sterkur mjöður. Bauð Adda að smakka og hann saup á en við hin fylgdumst með viðbrögðum. Hann brá sér ekki, horfði á flöskuna og fékk sér annan. Sagði síðan og brosti vel: – þett-er vest-fist -, altso með eðlilegum framburði skrifað. Ég hef síðan velt fyrir mér hvað þetta þýddi eiginlega, annað hvort: -Þetta er verst fyrst.- eða: -Þetta er vestfirðskt.- Aðspurður seinna svaraði hann ekki, bara hló glatt.

Að lokum segi ég: Vertu kært kvaddur af okkur héðan af Rogalandinu góða, frændi minn dýri og takk fyrir alla skemmtun. Megirðu fá undir fætur spánnýjan Pál, eða a.m.k. vandaða trillu að kljúfa sjóana alla á himnahafinu eilífðarinnar. Sjálfur er ég svo heiðinn og mikill fjörustubbur að ég ímynda mér ekki neitt svona „eftirlíf“, en hver er ég að neita því að þú getir heyrt til mín þarna úti við skýjahafið, á fullu að byggja upp nýja útgerð. Þú færð þá pottþétt í lið með þér hörku-áhöfn, þá bestu svo sem Stjána bláa, Nonna í Vallarborg, Palla og Dúlla og Konna og Bæsa og Kima og Einsa og Sigga Fróna og Eyjólf og … já, það vantar sko ekki úrvalið af hetjum hafsins þar um fiskislóð. Og þú nærð örugglega að lesa BB þarna!

Við Gro Tove og þinn frændi, Eyvindur P. Eiríks og Rósu.

Eyvindur P. Eiríksson

DEILA