Heimsóttu varðskipið Tý

Mynd: GAB

Fyrir stuttu síðan sátu nokkrir starfsmenn grunnskólans á Tálknafirði í daglegri kaffipásu þegar skólastjóranum, henni Steinunni, varð litið út um gluggann og niður á bryggju. Þar sá hún að varðskipið Týr hafði létt akkerum og hún hugsaði með sér að þetta væri nú ekki daglegur viðburður. Þegar Steinunn orðaði hugsunina við samstarfsfólk sitt kom í ljós að nokkrir úr þorpinu hefðu farið með börn sín í heimsókn í varðskipið daginn áður. Úr varð að Steinunn sló á þráðinn til Landhelgisgæslunnar og svo til skipstjóra Týs, og áður en starfsfólk og börn gátu snúið sér við voru þau farin af stað í skemmtilega heimsókn í varðskipið.

„Bæði grunn- og leikskólinn fóru í heimsókn í varðskipið Tý og það var mjög vel tekið á móti okkur,“ segir Steinunn í samtali við BB. Þau sýndu okkur allt skipið og jafnvel stýriklefann og fóru vel yfir starfsemina um borð og hlutverk Landhelgisgæslunnar. Við fengum líka stutta fræðslu um þorskastríðin sem vakti mjög mikinn áhuga hjá börnunum. Þau vildu til dæmis gjarnan vita hvar byssan væri og hvernig hún er notuð og svona.“

Steinunn sagði jafnframt að heimsóknin hefði ekki einungis verið spennandi fyrir börnin heldur var margt af starfsfólkinu að koma í fyrsta skipti um borð í varðskip. „Það kom okkur dálítið á óvart að skipið væri ekki stærra, en Þór er víst mun stærri,“ segir Steinunn. Þegar börnin á miðkjarna mættu í skólann daginn eftir heimsóknina unnu þau verkefni um heimsóknina og öfluðu sér frekari upplýsinga um Landhelgisgæsluna svo heimsóknin hefur greinilega skilað miklu fyrir nám þeirra og leik.

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

 

DEILA