Heimilisfólkið vant því að borða grænmetisfæði

Fanney og Óskar.

Takk fyrir áskorunina kæru Ásthildur og Haffi.

Í Jóhannshúsi er það húsfrúin sem sér um eldamennskuna og oftast er á boðstólnum einhverskonar grænmeti, baunaréttir eða salöt. Ég borða ekki kjöt og elda það ekki heldur, þannig að heimilisfólkið mitt er orðið mjög vant því að borða grænmetisfæði og held ég bara nokkuð sátt og ánægt með það.

Ég gef ykkur uppskrift af kúrs kúrs salati sem gott er að njóta með öðrum og kókos mangó karrý sósu sem er góð með salatinu og eins geggjaðar stökkar tortilla kökur . Svo Gotterí í hollara kantinum sem gott er að eiga í frystinum þegar nammilöngunin lætur á sér kræla.

Verði ykkur að góðu og ég vona að þið njótið.

Kúrs kúrs salat

2 bréf kús kús að eigin vali

1 haus spergilkál

1 kúrbítur

7 sætar paprikur appelsínugular eða 1 venjuleg

1 box kokteiltómatar

1 kubbur fetaostur

1 granatepli

½ poki blandað salat

3 msk blönduð fræ

3 msk tamarisósa

Olía til steikingar

1 tsk Sjávarsalt

2 tsk Indversk kryddblanda frá Prima

Byrjið á því að sjóða kúrs kúsið samkvæmt leiðbeiningum og látið bíða meðan þið skerið niður grænmetið. Skerið niður spergilkálið og kúrbítin, byrjið á að steikja spergilkálið á pönnu upp úr olíunni í 3 mínútur, bætið kúrbítnum og indversku kryddblöndunni og salti saman við og steikið í ca 2-3 mínútur í viðbót. Fræhreinsið granateplið, skerið niður tómata, paprikuna og fetaostinn og leggið til hliðar. Hitið pönnu og setjið fræin á vel heita pönnuna og ristið þar til þau eru orðin vel brún, takið af hellunni og hellið tamarisósunni yfir og látið kólna. Mér finnst betra að láta hráefnin sem eru heit kólna áður en ég blanda salatinu saman. Blandið saman í fallega skál og njótið þess að borða.

Kókos mangó karrý sósa

Þessi er góð með vefjum, eggjaköku, salati og baunaréttum

½ dós grísk jógúrt

½ dós kókosrjómi þá meina ég þetta þykka ekki vökvann með

3 msk mangó chutney

2 tsk karrý

Smá sjávarsalt

Öllu hrært vel saman og gott er að gera þessa sósu nokkru áður en hún er borin fram.

 

Sjúklega góðar stökkar tortillur

Þessar eru æði með súpum, baunaréttum, núðlum og hreinlega öllu, þær eru líka borðaðar eintómar á mínu heimili sem snakk.

Heilhveiti tortillur eða aðrar að eigin vali

Olía

Sjávarsalt

Indversk kryddblanda frá prima

Hvítlausksalt

Chilli flögur

Hitið ofninn í 180 gráðu.

Skerið tortilla kökurnar í þríhyrninga og leggið á ofnplötu klædda með bökunarpappír, dreifið olíuni jafnt yfi kökurnarr og veljið krydd sem ykkur líst best á, ég nota salt á allar og eina tegund af kryddi, ég baka yfirleitt einn pakka í einu og geri þá þrjár mismunandi útgáfur.

Kökurnar eiga að vera stökkar. Þið kryddið eftir því hvað þið viljið hafa kökurnar bragðmiklar.

Gotterí

Þessi stykki eru hættulega góð og dásamlegt að eiga í frystinum til að grípa í þegar nammi löngunin lætur á sér kræla.

2 dl rúsínur

2 dl kasjúhnetur

1 dl kókosolía

4 bollar Rice crispies

1 bolli ristaðar kókosflögur

1 ½ bolli hnetusmjör

1 poki heslihnetur

1 poki karamellumöndlur frá Hamingju eða venjulegar möndlur án hýði

1 ½ plata suðusúkkulaði

Ofan á 1 bolli ristaðar kókosflögur

Byrjið á að skera hnetur og möndlur í hæfilega bita og setjið í skál ásamt Rice crispiinu,rúsínunum og kókosflögum og blandið vel saman. Bræðið suðusúkkulaðið yfir vatnsbaði og bætið hnetusmjörinu og kókosolíunni saman við hrærið þar til blandan er kekklaus og hellið síðan blöndunni saman við hnetublönduna og hrærið vel saman.

Hellið blöndunni á pappírsklædda ofnplötu, þið getið ráðið þykktinni á stykkjunum ég set yfir rúmlega hálfa plötuna. Setjið ristuðu kókosflögurnar yfir og plötuna inn í frystir í 2 tíma.

Takið úr frysti og skerið niður í hæfilega bita og setið í box það sem þið ætlið að geyma og inn í frysti. Ég elska þegar mig langar í eitthvað gott og man svo eftir þessu góðgæti í frystinum, njótið.

Við sendum boltann í heimahagana til Gísla Ægis og Önnu Vilborgar sem reka Vegamót á Bíldudal, ég veit að þau eru gúrmei í eldhúsinu.

Fanney Sif og Óskar

 

DEILA