Framboðslisti Í-listans ákveðinn

Efstu menn á lista Í-listans.

Framboðslisti Í-listans, lista íbúanna í Ísafjarðarbæ, var samþykktur einróma á fundi í Edinborgarhúsinu í gær, 7. apríl. Á fundinum var einnig samþykkt að Gísli Halldór Halldórsson verði á nýjan leik bæjarstjóraefni listans. Í uppstillinganefnd sátu Bryndís Friðgeirsdóttir, Jóna Benediktsdóttir, Sigurður Hafberg, Viktor Pálsson og Sunna Einarsdóttir.

Fundarmenn lýstu yfir ánægju með störf listans á kjörtímabilinu sem er að ljúka. Meirihlutinn hefur unnið vel með fólkinu í sveitarfélaginu og lagt sig fram um að hlusta eftir vilja fólksins.

Í tilkynningu sem Í-listinn sendi frá sér eftir fundinn kemur fram að óhætt sé að ræða um sterkan framboðslista. Á listanum er bæði að finna fólk með mikla reynsla af sveitarstjórnarmálum og einnig ungt fólk með mikinn áhuga á samfélagsmálum. Nýir í efstu fimm sætin eru Aron Guðmundsson, sem er í öðru sæti og er að ljúka námi í stjórnmálafræði í vor, og Þórir Guðmundsson, lögreglumaður, sem verður í fimmta sæti. Í efstu fimm sætunum er einnig reynslufólkið Arna Lára Jónsdóttir, Nanný Arna Guðmundsdóttir og Sigurður Hreinsson. Í sjötta sæti er Gunnhildur Elíasdóttir, bæjarfulltrúi frá Þingeyri og er hún til í slaginn hvort sem hún verður á endanum aðalfulltrúi í bæjarstjórn eða varafulltrúi. Kristján Andri Guðjónsson bæjarfulltrúi er svo klár á varamannabekknum í áttunda sætinu. Í-listinn hefur sýnt að hann er tilbúinn til að hlusta á íbúana og endurmóta stefnu sína í ljósi umræðunnar, þrátt fyrir að geta einnig staðið fast á því sem talið er nauðsynlegt að gera jafnvel þó á móti blási.

Í samtali við Örnu Láru Jónsdóttur, sem vermir efsta sæti listans segist hún gríðarlega spennt fyrir því sem framundan er. „Það eru mörg spennandi verkefni framundan og áframhaldandi uppbygging samfélagsins. Stóru verkefnin framundan eru uppbygging á Torfnesi með líkamsræktarstöð og fótboltahúsi, auk þess sem byggja á blokk í Sindragötu til að koma til móts við vaxandi húsnæðisskort. Við viljum halda áfram að auka lífsgæði íbúanna. Í-listinn hefur lagt höfuðáherslu á gott mannlíf og góða þjónustu, þannig að fólki þyki reglulega gott að búa í Ísafjarðarbæ – svo gott að öðrum langi jafnvel að flytja hingað líka.“

Framboðslisti Í-listans fyrir sveitastjórnarkostningar 2018:

 1. Arna Lára Jónsdóttir, Ísafirði
 2. Aron Guðmundsson, Ísafirði
 3. Nanný Arna Guðmundsdóttir, Ísafirði
 4. Sigurður Hreinsson, Ísafirði
 5. Þórir Guðmundsson, Ísafirði
 6. Gunnhildur Elíasdóttir, Þingeyri
 7. Sunna Einarsdóttir, Ísafirði
 8. Kristján Andri Guðjónsson, Ísafirði
 9. Auður Ólafsdóttir, Ísafirði
 10. Guðmundur Karvel Pálsson, Suðureyri
 11. Baldvina Karen Gísladóttir, Ísafirði
 12. Magnús Einar Magnússon, Flateyri
 13. Agnieszka Tyka, Ísafirði
 14. Gunnar Jónsson, Ísafirði
 15. Halldóra Sigrún Ásgeirsdóttir, Ísafirði
 16. Inga María Guðmundsdóttir, Ísafirði
 17. Guðmundur Magnús Kristjánsson, Ísafirði
 18. Svanhildur Þórðardóttir, Ísafirði

 

Margrét Lilja

milla@bb.is

DEILA