„Eftir því sem ég kynnist fleirum virðast flestir vera að vestan“

Ljósmynd: Raphael Pinho

Þegar að er gáð leynist mikill mannauður í þorpunum í kringum Vestfirði. Fólk allsstaðar að úr heiminum og með starfsreynslu af öllu milli himins og jarðar. Ein þeirra kvenna sem auðgar þorpin er hún Sara Jónsdóttir sem á hús á Flateyri. Sara er Reykvíkingur sem hefur búið víðsvegar um heiminn, svo sem í Danmörku, Bandaríkjunum og á Spáni. Hún lærði bæði markaðsfræði og hagfræði þegar hún bjó í Kaupmannahöfn en starfaði einnig þar sem almannatengill fyrir fatahönnuði. Sambýlismaður Söru, Hálfdan Pedersen, keypti hús á Flateyri fyrir fjórtán árum og þau tólf ár sem þau hafa verið saman hafa þau eytt miklum tíma í að gera húsið upp. Þegar Sara er ekki á Flateyri starfar hún sumpart sem hönnuður m.a. fyrir Brauð & Co, en svo er hún stjórnandi HönnunarMars í Reykjavík. En hvað felur það í sér?

„Að vera stjórnandi HönnunarMars felst í því að keyra þetta batterí áfram og framkvæma þessa marglaga uppskeruhátíð hönnuða og arkitekta,“ svarar Sara í samtali við BB. HönnunarMars er ein af fjórum stærstu hátíðunum sem fram fara í Reykjavík svo það gefur auga leið að vinnan hlýtur að vera mikil sem liggur að baki skipulagningu á slíkri samkomu. „HönnunarMars er stærsta kynningarafl og uppskeruhátíð íslenskra hönnuða og arkitekta, en það eru einmitt þeir sem móta dagskrá hátíðarinnar ár hvert. Hingað koma að auki margir hönnuðir, arkitektar, blaðamenn, kaupendur og fyrirlesarar erlendis frá og þetta snýst um að skapa tengslanet milli íslenskra og erlendra hönnuða, viðskiptalífs og almennings. Á hátíðinni eru yfir hundrað viðburðir og til dæmis skipuleggjum við alþjóðlegu hönnunarráðstefnuna DesignTalks í Hörpu, þar sem koma fyrirlesarar erlendis frá, sem allir eru framúrskarandi á sínu sviði. Við erum líka með mjög skemmtilegar uppákomur í sendiherrabústöðum. Þá mæta íslenskir hönnuðir öðrum hönnuðum frá löndunum sem sendiherrarnir tilheyra og þeir fara í viðtöl í gegnum einskonar spurningaspil fyrir framan áhorfendur.“ Sara segir líka að í HönnunarMars sameinist níu greinar hönnunar og vinnan sem fylgir sé mjög mikil frá janúar og fram yfir hátíðina. „Það er eiginlega þannig hjá mér að það er nýársdagur en svo eru allt í einu komnir páskar,“ segir hún og hlær.

En hvað kom til að þau eignuðust hús á Flateyri? „Sko, húsið verður til fyrir mína tíð því Dáni rakst á það fyrir fjórtán árum þegar hann var að vinna við upptökur á fyrstu Aldrei fór ég suður minnir mig,“ segir Sara hugsi. „Hann fór að skoða bæina í kringum Ísafjörð og fellur fyrir þessu húsi sem var þá í algjörri niðurníðslu. Þegar hann er svo búinn að afla sér nokkurra upplýsinga um húsið þá kaupir hann það og þá bara hefst heljarinnar vinna. Við erum svo að kynnast þegar þessi vinna byrjar. Dáni er búinn að vinna að húsinu og endurgera mikið síðustu mörg ár og hefur gert það af mikilli natni. Ég held að mér sé óhætt að segja að 99.9 prósent af efninu í það sé endurrunnið,“ segir hún, en þess má geta að húsið hefur fengið verðskuldaða athygli í erlendum arkitektablöðum enda er það óskaplega fallegt, bæði að innan og utan.

„Við vorum mörg ár án rennandi vatns,“ bætir hún við, „og þegar við gátum loksins farið að sturta niður í klósettinu fyrir um fjórum árum, þá héldum við gott partý,“ segir hún og skellihlær. Hjónin eyða eins miklum tíma á Flateyri og hægt er vegna vinnu eða skóla barnanna í Reykjavík. En hvað er það sem heillar?

„Þetta er auðvitað einstaklega fallegur staður og það er svo mikil nálægð við fjöllin og hafið. Og án þess að ég vilji hljóma klisjukennd þá er bara einstaklega góð stemning á Flateyri og fólkið er gott þar. Fyrir mér er þetta líka einskonar griðastaður í lífinu. Í Reykjavík er mikið áreiti en þó svo það séu alltaf margir gestir hjá okkur á Flateyri og mikið líf og fjör þá er það allt annað líf,“ segir Sara og leggur áherslu á orð sín. „Svo er það þannig að flest frábært fólk sem ég kynnist fyrir sunnan reynist vera að vestan,“ segir Sara og hlær enn meir. Hjónin ráðgera að vera megnið af sumrinu fyrir vestan enda ætla þau ásamt hinum eigendum Vagnsins á Flateyri að halda áfram með endurbætur á því húsnæði. Síðastliðið sumar söfnuðu þau töluverðri upphæð fyrir endurbæturnar í gegnum Karolina fund og í júnímánuði verður haldið uppskeruhóf til að fagna þeim áfanga. En það er þó ekki það eina sem Sara vinnur að á Flateyri, hún er líka með puttana í mótun skapandi námsbrautar Hugmyndir, heimurinn og þú, fyrir hinn nýja Lýðháskóla á Flateyri, sem stefnt er á að opna samhliða hinni sem nú þegar er mótuð og ber yfirskriftina Hafið, fjöllin og þú. Lýðháskólinn mun svo opna fyrir umsóknir nemenda þann 15. apríl næstkomandi.

 

Sæbjörg

sabjorg@gmail.com

DEILA