Brotist til fátæktar

Strandlína Teigsskógs.

Það er auðvitað að æra óstöðugan að ræða enn eina ferðina á þessum vettvangi helstu framfaramál Vestfirðinga í dag, svo mjög sem þau hafa verið til umræðu. Ekki hafa lýðræðislega kjörnir fulltrúar fólksins fyrr tekið eitt skref áfram en helstu stofnanir og embættismenn taka tvö skref afturábak með ýmsum tilbrigðum og afar óljósum rökum. Þar hafa hagsmunir íbúa fráleitt verið hafðir að leiðarljósi líkt og tíðkast hefur við löngu stigin framfaraskref í öðrum landshlutum.

Í títtnefndum Teigsskógi hafa hagsmunir tveggja sumarbústaðaeigenda ráðið för um áratugaskeið án þess að almenningur og fulltrúar þeirra hafi fengið rönd við reist. Hagsmunir íbúa fjórðungsins hafa verið látnir lönd og leið. Sama sviðsmynd er að teiknast upp í málefnum fiskeldis og frekari nýtingu raforku. Endalausar hugmyndir af hinum ýmsu úttektum og nálgunum til þess að þóknast sífrjóum hugum þeirra er vilja vernda náttúruna samkvæmt eigin hugmyndum annars staðar en í heimabyggðum sínum.

Steininn hefur þó tekið úr á undanförnum dögum þegar auðmenn hafa boðið fram reiðufé ef það mætti verða til þess að breyta endanlegum ákvörðunum kjörinna fulltrúa í sveitarfélögum á Vestfjörðum undir merkjum náttúruverndar.

Einn þessara auðmanna, sem um nokkurra ára skeið hefur af einhverjum ástæðum verið búsettur erlendis, flaug til landsins til þess að stofna samtökin Hrífandi og hélt ráðstefnu um málefnið í Reykjavík í gær. Þess má geta að enginn innfæddur kom að þessari ráðstefnu. Í viðtölum mátti á honum skilja að samtökunum væri sérstaklega beint að byggð á Vestfjörðum og framtíð hennar. Í einu af mörgum viðtölum við hann í fjölmiðlum sagði hann orðrétt: „Það er mín skoðun að við séum á villi­göt­um þegar við erum sí­fellt að reyna að aðgreina mann­eskj­una frá nátt­úr­unni. Það verður til þess að við telj­um okk­ur alltaf yfir nátt­úr­una haf­in og að það gefi okk­ur leyfi til að út­rýma teg­und­um og þar fram eft­ir göt­un­um.“ Þetta er afar sérkennilegt að umræðu af þessum toga skuli undir rós vera beint að íbúum Vestfjarða. Hvergi á byggðu bóli hafa náttúran og maðurinn komist nær því að vera eitt í gegnum tíðina en einmitt á Vestfjörðum. Endurhæfing í þessa átt verður að fara fram þar sem aðskilnaður sem þessi er daglegt brauð.

Það er ekki nýtt að sjálfskipaðir umboðsmenn náttúrunnar hafi afskipti af lífsbaráttunni á Vestfjörðum. Skemmst er að minnast þegar lofað var 600 öðruvísi störfum á Vestfjörðum ef þar yrði ekki reist svokölluð stóriðja. Þáverandi leiðtogar í héraði tóku tilboðinu. Í heilan áratug hefur ekkert til þessara umboðsmanna spurst hér vestra og eina starfið sem þessi yfirlýsing hefur skapað er formennska í sambandi íslenskra sveitarfélaga.

Fyrir nokkru var kallað eftir því að fulltrúar Vestfirðinga á Alþingi tækju af skarið í skipulagsmálum í Teigsskógi. Það gerðu þeir allir, nema þrír, skömmu síðar undir forystu Haraldar Benediktssonar fyrsta þingmanns kjördæmisins með þingmannafrumvarpi. Ekkert hefur spurst til þess frumvarps síðan. Fátítt er reyndar að þingmannafrumvörp verði að lögum. Hefð mun einnig ráða að nokkru að sitjandi ráðherrar séu ekki meðflutningsmenn þingmannafrumvarpa. Sú hefð réð ekki þegar ráðherra kjördæmisins var meðflutningsmaður þegar Teitur Björn Einarsson lagði fram frumvarp sitt um Teigsskóg. Ráðherrar okkar, Þórdís Kolbrún og Ásmundur Einar, geta ekki vísað til hefða og skotist undan ábyrgð í þessu framfaramáli. Nú reynir á afl þeirra og vilja. Ennþá er hægt að gera frumvarp Haraldar og félaga að lögum. Hvar Lilja Rafney er niður komin veit enginn.

Ný forystusveit Vestfirðinga í héraði hefur tekið sér stöðu á undanförnum misserum. Sú sveit er vaskleg. Ásthildur, Friðbjörg, Gísli Halldór, Daníel, Jón Páll, Guðbjörg Stefanía og Eva hafa öll sýnt samstöðu um að láta samhliða hagsmuni íbúa og náttúru ráða för. Ekki má gleyma Pétri Markan, sem tekist á skömmum tíma að breyta Fjórðungssambandi Vestfjarða úr óljósu embættismannafélagi í baráttuafl. Allt vill þetta baráttuglaða fólk láta verkin tala.

Nú er það sjálfsagt mál að sýna umburðarlyndi gagnvart hugmyndum auðjöfra víðs vegar að hvernig íbúar á Vestfjörðum eigi að haga málum sínum. Það mun hins vegar á endanum skipta sköpum um framtíð búsetu á Vestfjörðum hvernig kjörnir fulltrúar þeirra haga baráttu sinni í helstu baráttumálum fjórðungsins. Stefna auðjöfra um að brjótast með Vestfirðinga til fortíðar og fátæktar má hins vegar aldrei verða að veruleika.

Stakkur

DEILA