Fastheldin í matargerð

Gerður og Davíð eiga uppskrift vikunnar.

Við þökkum Gunnu og Palla kærlega fyrir áskorunina. Við erum nokkuð fastheldin í matargerð og kannski ekki mesta ævintýrafólkið, en þegar við dettum niður á eitthvað sem okkur líkar, þá er það líka óspart notað. Við ætlum að nota þetta tækifæri til að kynna fyrir lesendum BB tvær uppskriftir, en þær eru báðar komnar frá ömmu minni (Gerður), Ragnheiði Runólfsdóttur frá Húsavík á ströndum. Fyrri uppskriftin er af brauði sem kallast því hóflega nafni „Besta brauð í heimi“. Hin uppskriftin er eplakaka sem er í sérstöku uppáhaldi hjá okkur og ættu margir af okkar vinum að kannast við hana því hún hefur óspart verið notuð við ýmis tækifæri.

Ætlum við að skora á vini okkar og sælkerana Ásthildi Sturludóttur og Hafþór Gylfa Jónsson að koma með uppskrift fyrir næsta laugardag.

Besta brauð í heimi

800 gr Heilhveiti

100 gr sólblómafræ

100 gr sesamfræ

4 tsk lyftiduft

1 tsk matarsóti

1 tsk salt

9 dl blanda af mjólk og súrmjólk/ab-mjólk

Hunang eftir smekk

Blanda þurrefnunum saman og bæti svo vökvanum við. Blanda vel saman og set í tvö form.

Set í ofn og baka í 1 klst á 180 gráðum.

 

Eplakaka

Græn epli 3-4 stk.

200 gr sykur

200 gr smjör (við stofuhita)

200 gr hveiti

kanilsykur

Græn epli, afhýdd og skorin í bita og sett í botninn á eldföstu móti

Lögð í eldfast mót og kanilsykri stráð yfir.

Sykri, smjöri og hveiti blandað saman og mulið yfir eplin.

Sett í ofn og bakað við 180 gráður þar til deigið er orðið fallega gyllt.

 

 

DEILA